148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[17:04]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir mjög áhugaverða umræðu í dag. Það er ljóst af umræðunni að dæma að við erum flest á svipaðri línu, þ.e. að við viljum að aukinn kraftur og hraði sé settur í uppbyggingu dreifikerfisins. Því hljótum við að vilja koma þeim vilja á skýran hátt inn í stefnuna.

Við þurfum virka umræðu um þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir í flutningskerfi raforku. Við þurfum að setja okkur skýr markmið um hvernig við viljum sjá raforkukerfið byggjast upp. En eins og ég kom inn á áðan í andsvari er síðan kerfisáætlunar að útfæra leiðir til að koma vilja þingsins í verk.

Eins og þetta er núna vantar allan fókus í þetta. Það er ekki nóg að koma fram með skýrslur og nefndir ef ekkert á að framkvæma. Ég held að við getum verið sammála um að núverandi tíu ára kerfisáætlun Landsnets og þriggja ára framkvæmdaáætlun séu allt of seinvirkar. Einfaldlega er um að ræða of seinvirk áhöld og þær áætlanir eru bara hálfbitlausar. Það er greinilegt að við þurfum einhvern veginn að breyta aðferðafræðinni ef við ætlum raunverulega að koma einhverju áfram.

Ég nefni sem dæmi Blöndulínu sem hefur verið í ferli í um tíu ár og líklega eru enn um átta til tíu ár í viðbót þar til hún kemur.

Það virðist því miður vera svo að styrking flutningskerfis raforku sé í algerum ógöngum. Við verðum raunverulega að setjast yfir þá valkosti sem eru mögulegir og sjá hvort ekki séu til raunhæfari leiðir til að búa til skarpari áhöld fyrir línulagnir. Ein leið er auðvitað sú að þingið leggi skýrar línur í þessari stefnu og mögulega ættum við að ganga svo langt að íhuga sérstaka lagasetningu til að koma fram innviðauppbyggingu, svo sem línulögnum, höfnum, vegalagningu og flugvöllum. Slík lagasetning gæti orðið til þess að skera úr áralöngum deilumálum sem enginn hefur efni á.

Að lokum langar mig til að nýta tækifærið og vekja athygli hv. þingmanna og annarra tilheyrenda á því að nú stendur yfir mótun kerfisáætlunar 2018–2027 samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003, og svo skemmtilega vill til að aðeins fyrr í vikunni birti Landsnet matslýsingu þeirrar áætlunar og er frestur til að senda inn athugasemdir og ábendingar um hana til og með 5. mars. Ég vil hvetja alla sem hafa slíkar athugasemdir eða ábendingar til að nýta tækifærið og gera það. Við náum sömuleiðis vonandi að ljúka umfjöllun þingsins um þessa þingsályktunartillögu hratt og vel þannig að hún nái að setja mark sitt á kerfisáætlun 2018–2027.

Frú forseti. Ég verð að síðustu að leggja áherslu á hversu miklu máli það skiptir að þingið nýti þetta tækifæri til að marka raunverulega opinbera stefnu um uppbyggingu flutningskerfis raforku til að uppfylla þarfir samfélagsins fyrir fullnægjandi aðgengi að raforku og bestu mögulegu nýtni raforkukerfisins. Að sama skapi þarf að stuðla að því með skýrum markmiðum að kerfið sé í stakk búið til að standa undir fyrirhuguðum orkuskiptum í samgöngum, sjávarútvegi og iðnaði. Slík stefna væri líka í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 7 um sjálfbæra orku sem snýr að því að tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði. Aukin markmiðsuppbygging styður líka við markmið og aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum og því ljóst að hér er til mikils að vinna.