148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[17:08]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Mig langar að þakka fyrir þessar umræður í dag. Ég hef heyrt að nokkrir hv. þingmenn hafa komið inn á það að hafa fundist þær góðar og mér hefur fundist umræðan mjög svo efnismikil, málefnaleg og góð. Ég fagna því mjög.

Það eru kannski þeir sem hafa tekið þátt í umræðunni sem hafa nefnt það einnig að mér finnst vera nokkuð skýr lína sem þingið leggur hér. Nú fer þetta til atvinnuveganefndar og jafnframt til skoðunar hjá umhverfis- og samgöngunefnd og auðvitað koma umsagnir og annað, en mér hafa þótt þessar umræður mjög góðar.

Ég vil nefna nokkur atriði. Ég er ekki viss um að ég hafi náð að skrifa niður allar spurningarnar, en það eru nokkur atriði sem mig langar að koma inn á. Ég nefndi í fyrsta, öðru eða þriðja andsvari, ég man ekki nákvæmlega hvað ég sagði en vildi bara að það væri alveg skýrt til að forðast misskilning að Landsnet starfar ekki á samkeppnismarkaði heldur er hluti eigenda þess, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, sem gerir það. Þetta var í kjölfar spurninga frá hv. þm. Smára McCarthy sem spurði hvort við gætum ekki einfaldlega sett fjármagn sérstaklega inn í Landsnet, vænti ég, svo við gætum séð þær framkvæmdir sem við teljum mikilvægar fara af stað sem fyrst.

Ekki er gert ráð fyrir að ríkið fjármagni beint framkvæmdir í flutningskerfinu vegna þess að Landsnet hefur þetta sérleyfi samkvæmt lögum til að reka flutningskerfið og Orkustofnun setur Landsneti tekjumörk. Þau fyrirtæki stýra gjaldskrám Landsnets til viðskiptavina. En ég þori samt ekki að fara með hvort og þá hvaða heimildir við hefðum yfir höfuð til að gera það. Ég ætla ekki að fullyrða um það en ekki er gert ráð fyrir því.

Það eru nokkur atriði sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom inn á. Hann nefndi nokkuð oft jarðstrengi og að hér væri verið að auka þá verulega. Ég vil árétta hvað varðar þessa þingsályktunartillögu þá er staðan bara óbreytt. Við erum hins vegar að boða að við förum í rannsóknir til að athuga hvort við getum gert það í meira magni. Það er með tilliti til þeirra atriða sem við nefnum sérstaklega; hversu raunhæft það sé, hvað sé í því fyrir okkur o.s.frv. Auðvitað snýst þetta alltaf um jafnvægi. Það er ekki svo að ég geti komið hingað og sagt hver hin eina rétta leið sé. Við leggjum einfaldlega mjög mismunandi mat á það hvað sé þess virði að borga fyrir.

Þegar hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson spyr t.d. hvort við eigum að hafa þetta rándýrt þá er bara spurning um hvað er rándýrt. Við leggjum mismunandi mat á það. Auðvitað er hægt að tala um það í krónum og aurum en það er líka hægt að leggja ákveðið — stundum er þetta spurning um lífsgæði, stundum um efnahagslegt mat. Við erum líka með aðrar atvinnugreinar þar sem er samspil á milli, hvaða tækifæri aðrar atvinnugreinar hafa mögulega. Hér er t.d. hægt að nefna ferðaþjónustu, ferðamenn, hverju skilar það okkur, hvað erum við tilbúin til að borga fyrir? Stundum snýst það ekki um krónur heldur einfaldlega lífsgæði, fyrir hvað við erum tilbúin að borga.

Hér var oft nefnt hvort neytendur eigi að borga. Varðandi það að stofnkostnaðurinn megi vera tvisvar sinnum hærri er frá árinu 2015. Það er ekki verið að leggja það til hér, heldur er það óbreytt. Svo tökum við það upp að ári liðnu þegar við höfum látið vinna þessar rannsóknir.

Stóriðjan er auðvitað langstærsti viðskiptavinur Landsnets. Þegar rætt er um heimili, sérstaklega úti á landi, eða lítil fyrirtæki eru heimilin að mér skilst um það bil 5% af þessu öllu saman. Stóriðjan hefur auðvitað gert okkur kleift að byggja þó upp þetta kerfi sem við höfum. Ég vildi bara nefna þetta.

Það kom spurning hvort Orkustofnun ætti ekki bara að rannsaka þetta, af hverju við værum að leggja til að það yrði gert af sjálfstæðum, óháðum aðilum. Orkustofnun er í grunninn eftirlitsaðili og svo sem ekki hlutverk hennar að rannsaka jarðstrengi sérstaklega. En svo er þetta okkar ákvörðun að leggja til að farið verði í þessa vinnu.

Kerfið á auðvitað að standa undir sér. Það er ekki frítt. Það er ekkert frítt. Auðvitað er alltaf einhver sem borgar. Við erum að taka ákvörðun um að reyna að finna eitthvert jafnvægi í því hvað við séum tilbúin að borga og hvað við séum tilbúin að borga mikið. Við leggjum vissulega mismunandi mat á það. Þess vegna er ekki ein lína í þessu. Þetta snýst allt um jafnvægi. Þess vegna er líka nefnt, sem sumum finnst almennt, að þetta þurfi að vera jafnvægi efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta. Sem við síðan aftur leggjum mismunandi mat á sem er ástæða þess að þetta mál kemur hingað inn í þingsal. Ég fagna því að það sé komið þó hingað og við séum að fjalla um þetta sem hefur síðan áhrif á kerfisáætlunina. Hér sitja lýðræðislega kjörnir þingmenn, fulltrúar, sem okkur finnst mikilvægt að geti rætt hvaða áherslur eigi að leggja þegar þetta er unnið áfram. Þess vegna skiptir máli hvernig þetta mun líta út eftir þinglega meðferð. Það eru skilaboðin sem síðan á að fara eftir.

Ég fagna því sérstaklega að mikill samhljómur virðist vera um að byggja þurfi upp flutningskerfi raforku. Þess vegna fagna ég því líka að fá að sitja áfram í stól iðnaðarráðherra og vinna eftir þeim stjórnarsáttmála sem nú er unnið eftir. Því að þar eru skýrar línur, við erum að leggja áherslu á uppbyggingu þessa. Og svo ég nefni það líka aftur er verkefnið í mínum huga þetta: Við þurfum fyrst að vera sammála um mikilvægi þess að þeir innviðir, þessi lífæð samfélagsins, skiptir máli og að allir íbúar, hvar sem fólk ætlar að hefja atvinnurekstur, hafi sama aðgang að því. Ég er ekki að segja að menn séu endilega ósammála um það en ég hef samt haldið því fram að það sé mögulega einhver skortur á skilningi á að það er ekki staðan í dag. Það er númer eitt.

Við þurfum síðan að treysta þeim sem vinna þessi verk. Við getum öll gert betur í því að það ríki meira traust til þeirra.

Svo númer þrjú þurfa lög og reglur að styðja við að þetta sé allt hægt. Mér hefur fundist við í of miklum mæli einblína á lögin og reglurnar en ekki endilega huga að og reyna að taka utan um fyrsta og annað atriði. Það er forsenda þess að þetta gangi. Auðvitað þurfum við að líta til þess að það hefur gengið ótrúlega illa í mörg ár að treysta flutningskerfi raforku í landinu. Þess vegna finnst mér sú rödd sem hér heyrist boða gott. Við erum sammála um að það þarf að gera það. Við leggjum mjög mismunandi mat á hvers virði það er að leggja ekki loftlínur til dæmis. Mér fannst áhugavert að hlusta á hv. þm. Ara Trausta Guðmundsson og vil þakka honum sérstaklega fyrir efnismikla og málefnalega ræðu. Hann hefur vissulega mikla þekkingu á málaflokknum. Jarðstrengur er heldur ekkert bara alltaf það sama og jarðstrengur. Fólk fer auðvitað á mjög mismunandi svæði. Það er alla vega mín skoðun sem kannski segir það líka að fólk hefur einfaldlega mismunandi sýn á þetta, rétt eins og sumum finnst mannanafnanefnd mikilvæg en við höfum öll mismunandi skoðun á hvaða nöfn séu falleg og hver ekki, meðan mér finnst að stjórnmálamenn eigi bara ekki að hafa skoðun á því hvaða nöfn séu falleg og hver ekki. En það er önnur umræða. En þá finnst mér líka allt í lagi að hugsa: Það er mín skoðun að stundum sé bara skárra að horfa á einhverja línu sem raskar ekki jarðvegi með óafturkræfanlegum hætti. Allt þetta spilar saman.

Sömuleiðis varðandi vindmyllur. Það er enn önnur umræða sem, já, til að svara hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, verður tekin inn í vinnu við langtímaorkustefnu sem er sömuleiðis eitthvað sem við viljum væntanlega ekki sjá gerast einhvern veginn þannig að við eftir nokkur ár horfum yfir landið og vindmyllur eru úti um allt, heldur að við komum okkur saman um einhver svæði þar sem þær eru byggðar í töluverðu magni.

Að lokum, af því að ég er að verða búin með tímann, langar mig að þakka fyrir umræðuna, óska nefndunum báðum góðs gengis við að vinna með málið og vinna úr umsögnum sem koma. Ég er bjartsýn að eðlisfari og hef fulla trú á að þinginu takist að klára þetta. Ég held að þingið þurfi að sýna að það ráði við svona verkefni og klári það. Því að það mun þá skila sér, líkt og lagt var upp með þegar þetta kom inn í lögin, í þeirri vinnu sem síðan tekur við, sem er t.d. kerfisáætlun.