148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

bætt stjórnsýsla í umgengnismálum.

90. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu varðandi tálmanir og er í raun svar mitt við tálmunarfrumvarpi sem lagt var fram á síðasta kjörtímabili, til að hafa það alveg á hreinu. Í því frumvarpi átti að bæta við ákveðnu fangelsisákvæði sem ég tel óþarft af því að allt ofbeldi gagnvart börnum varðar þegar fangelsisvistun og vandamálið verður eftir sem áður það sama, þ.e. vandamálið liggur í meðferð málsins og úrlausn málsins.

Þingsályktunartillagan hljóðar svona:

„Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum sem varða úrræði sýslumanns í umgengnismálum sem og að tryggja fjármögnun verkefnisins með það að markmiði að foreldrar og börn þurfi ekki að bíða eftir aðgerðum af hálfu sýslumanns.

Sérstaklega skal huga að því hvernig tryggja megi styttri málsmeðferðartíma, að ákvæði 47. gr. a barnalaga um bráðabirgðaumgengni nýtist í þágu barns, að gætt sé að hagsmunum og réttindum barna með tilliti til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að dagsektarúrræði sýslumanns verði einfaldað og gert áhrifaríkara, að meðlag verði tengt við umgengni, að endurtekin brot á umgengnissamningi verði ekki meðhöndluð sem ný mál og að auðveldara verði að fá gjafsókn í forsjármálum. Aðgerðaáætlun og frumvarp liggi fyrir eigi síðar en við upphaf haustþings 2018.“

Kveðið er á um réttindi og vernd barna annars vegar í barnaverndarlögum og hins vegar í barnalögum. Í 2. mgr. 1. gr. barnalaga er mælt fyrir um að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess. Í 1. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga segir að börn skuli eiga rétt á vernd og umönnun. Þau skuli njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska.

Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að tryggja velferð barnanna, númer eitt, tvö og þrjú. Við skulum hafa það alveg skýrt.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. sömu laga er það markmið laganna að tryggja að börn sem búi við óviðunandi aðstæður og börn sem stofni heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Markmið íslenskra laga sem fjalla um börn og barnavernd eru þannig fyrst og fremst miðuð að því að tryggja réttindi og vernd barna. Hið sama gildir um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en í 1. mgr. 3. gr. hans segir að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.

Þrátt fyrir göfug markmið er núgildandi löggjöf og stjórnsýsluframkvæmd ekki með þeim hætti að réttindi barna séu tryggð. Með þingsályktunartillögu þessari er stefnt að því að gera úrbætur á löggjöf og stjórnsýslu er varðar börn með það að markmiði að stuðla betur að því að tryggja áðurnefnd réttindi og vernd barna, að tryggja velferð barna.

Eitt helsta vandamál í stjórnsýslunni þegar hún hefur aðkomu að tálmunarmálum er að úrræði sem standa til boða eru afar seinvirk. Þannig er málsmeðferð hjá sýslumanni mjög löng og úrræðin eru því áhrifalítil í takti við það og henta illa til að leysa úr deilumálum. Það foreldri sem talið er beita tálmun getur notað sér þennan langa málsmeðferðartíma til að viðhalda tálmuninni, jafnvel þegar hún er óréttmæt. Viðtalsaðili sagði við mig að hann treysti sér til að viðhalda tálmunarmáli í fimm ár, það væri ekkert mál. Það er óviðunandi. Skjótvirkari úrræði kæmu öllum málsaðilum til góða, bæði þeim foreldrum sem tálma aðgengi hins foreldrisins í góðri trú vegna rökstudds gruns um hættu um öryggi barns og þeim foreldrum sem eru á óréttmætan hátt beittir tálmun af hinu foreldrinu og barninu sjálfu. Skjótari úrlausn í málinu leysir úr óvissu og bætir öryggi og stöðu allra sem að málinu koma.

Nú skiptir máli að huga að ákveðinni dreifingu. Í þessum málum er ekki alltaf svart/hvítt, satt eða ósatt, hvort tálmun sé réttmæt eða óréttmæt. Báðir aðilar geta haft rétt fyrir sér á einhvern hátt. Þetta snýst ekki bara um að annað foreldri beiti tálmun og hitt sé beitt tálmun eða ekki. Þetta fer yfir allt bilið þar á milli líka. Og þar kemur tími oft til hjálpar þar sem miklar tilfinningar eru í þessum málum. Þetta varðar börn foreldranna. Það eru rosalega miklar tilfinningar bundnar í því sambandi. Þegar reynir á það samband getur skapið auðveldlega farið með fólk. Tíminn er oft ákveðið lækningatæki til að fólk rói sig niður og hugsi hlutina skýrt þannig að í sáttaferlinu, sáttameðferðinni, er oft gefinn tími til þess að velta fyrir sér vandamálunum og aðstæðum. En tíminn má hins vegar ekki vera svo langur að foreldrar eða börnin sérstaklega, við erum að huga að velferð þeirra hér, þurfi að bíða út af málsmeðferðartíma kerfisins. Það er það sem skiptir öllu máli hér, að kerfið geri ekki að verkum að börn þurfi að bíða eftir að fá úrlausn sinna mála.

Samkvæmt 33. gr. a barnalaga, nr. 76/2003, er foreldrum skylt að leita sátta áður en krafist er úrskurðar eða höfðað mál vegna forsjár, lögheimilis, umgengni, dagsekta eða aðfarar. Ákvæði þetta var lögfest ásamt nokkrum öðrum breytingum í því skyni að laga málsmeðferð í þessum málaflokki. Nú, þegar nokkur reynsla er komin á notkun og beitingu sáttameðferðarúrræðis og annarra lagabreytinga sem gerðar voru á sama tíma, er rétt að fram fari könnun á árangri lagabreytinganna. Eðlilegt er að gera þær kröfur að þessi úrræði þjóni sínum tilgangi og stuðli að bættum aðstæðum barna og foreldra. Reynslan gefur til kynna að svo kunni ekki að vera og er því ástæða til að skoða hvort frekari breytinga er þörf.

Mér finnst vert að endurtaka að þessi mál eru gríðarlega viðkvæm. Þau snúast um mannleg samskipti að öllu leyti, sérstaklega í þeim aðstæðum þar sem er jafnvel skilnaður í gangi og skap og tilfinningar eru mjög vandmeðfarnar. Eins og segir í þessari tillögu er hlutverk kerfisins, hlutverk okkar að huga að velferð barnsins númer eitt, tvö og þrjú.

Það verður aldrei hægt að búa til alveg fullkomið kerfi fyrir alla og fyrir öll mál. Sum mál eru tvímælalaust erfiðari en önnur. Þó að farið sé í gegnum sáttameðferð er ekki gefið mál að hún takist. Það er ekki sjálfkrafa hægt að gera ráð fyrir að öll mál leysist. Við verðum hins vegar að gera okkar besta til að bjóða upp á möguleikann á að ná sáttum og að foreldrar og börn viti alltaf hvert þau eigi að snúa sér. Það er eitt af vandamálunum sem kemur fram í þessum málum að stundum vita foreldrar eða börn ekki hvert þau eigi að leita. Þeim er jafnvel vísað á milli nokkurra aðila, lögreglu, barnaverndar, umboðsmanns barna, fram og til baka. Þegar foreldri kemur kannski í annarlegu ástandi til að ná í börn og fær augljóslega ekki börnin út af því ástandi eða öfugt, hvernig sem það kemur upp, þá er viðkomandi foreldri jafnvel að brjóta umgengnissamning með því að neita umgengni í það skiptið. En allir myndu held ég viðurkenna að það séu réttmæt rök fyrir því. Það er mjög erfitt að átta sig á því hver getur gefið foreldrinu leyfi til að tálma í það skiptið. Miðað við þau viðtöl sem ég hef farið í varðandi þetta er það frekar óljóst og í rauninni horfa menn bara í gegnum fingur sér, lögreglan gerir það t.d., með svoleiðis mál. Þetta er allt mjög erfitt. Þannig að ég vil endurtaka að markmiðið er að reyna að gera betur í því kerfi sem við höfum til að tryggja réttindi og velferð barnsins. Að kerfið sé ekki fyrir. Það er algert lykilatriði. Það er ekki auðvelt en þetta er tilraun til þess að komast í þá átt.

Því er lagt til að Alþingi álykti að fela dómsmálaráðherra að gera breytingar á lögum sem stuðli að úrbótum á þeim vanda sem hér hefur verið fjallað um. Þeir þættir sem ráðherra hugi sérstaklega að eru hvernig tryggja megi styttri málsmeðferðartíma með tilliti til þess sem barni eru fyrir bestu miðað við 47. gr. a barnalaga um bráðabirgðaumgengni, að gætt sé að hagsmunum og réttindum barna með tilliti til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að dagsektarúrræði sýslumanns verði gert einfaldara og áhrifaríkara í notkun, að meðlag verði tengt við umgengni og að það verði auðveldara að fá gjafsókn í forsjármálum. Með þessum áhersluþáttum má stuðla að því að gera viðunandi úrbætur í málaflokknum, það væri a.m.k. í áttina. Þetta eru augljósu gallarnir sem þeir sem þekkja til í kerfinu sjá. Það er það sem við þurfum að einbeita okkur að því að laga. Við lögum ekki neitt með því að henda einhverjum í fangelsi. Nema auðvitað ef um ofbeldi er að ræða. Þá er það þegar tryggt í lögum.

Þá er lagt til að aðgerðaáætlun og lagafrumvarp liggi fyrir eigi síðar en við upphaf haustþings 2018. Ljóst er af umræðu um þennan málaflokk að fjöldi einstaklinga, foreldra og barna bíður úrlausna mála sinna og verður því að leggja áherslu á að mál þetta sé unnið hratt í þágu barna og foreldra sem bíða úrvinnslu sinna mála í núverandi kerfi. Með samþykkt þingsályktunartillögu þessarar er stuðlað að bættu umhverfi og lífsskilyrðum barna og fjölskyldna og er því lagt til að Alþingi samþykki að fela dómsmálaráðherra að gera þær nauðsynlegu úrbætur sem hér hefur verið fjallað um.

Að lokum legg ég til að málið fari til velferðarnefndar því að markmið tillögunnar er að huga að velferð barna.