148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

sálfræðiþjónusta í opinberum háskólum.

112. mál
[17:56]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um sálfræðiþjónustu í opinberum háskólum. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að auka aðgengi að sálfræðiþjónustu fyrir háskólanema í opinberum háskólum frá og með skólaárinu 2018–2019. Jafnframt leiti ráðherra leiða til að efla sálfræðiþjónustu í öðrum háskólum en opinberum. Hvort tveggja verði gert í samráði við háskólana sjálfa, Sálfræðingafélag Íslands og heilbrigðisráðherra.“

Meðflutningsmenn eru hv. þingmenn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Inga Sæland, Una Hildardóttir og Þorsteinn Víglundsson.

Tillagan var áður lögð fram á 146. þingi, en fyrsti flutningsmaður hennar var Bjarni Halldór Janusson, varaþingmaður Viðreisnar. Það er gaman að geta þess að á þeim tíma var hann yngsti þingmaður sem hafði tekið sæti á hæstv. Alþingi.

Frú forseti. Rétt er að fara yfir helstu ástæður þess hvers vegna þingsályktunin er að mati flutningsmanna nauðsynleg. Á síðustu misserum hefur orðið löngu tímabær og þörf vitundarvakning um mikilvægi geðheilbrigðismála og hversu alvarlegar og víðtækar afleiðingar geðræn vandamál hafa þegar ekki er gripið í taumana.

Viðreisn hefur átt mikil og góð samskipti við stúdentahreyfingarnar um þau málefni í aðdraganda þessarar þingsályktunartillögu. Þau samskipti hafa sýnt okkur og sannað að úrbætur á því sviði eru brýnar og hreyfingarnar taka vandamálið mjög alvarlega. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að leggja eigi sérstaka áherslu á forvarnir og lýðheilsu og er menntakerfið nefnt sérstaklega í því samhengi. Einnig kemur fram að heilbrigðisþjónusta í framhaldsskólum verði efld með áherslu á geðheilbrigði.

Frú forseti. Það er auðvitað fagnaðarefni að efla eigi geðheilbrigðisþjónustu í framhaldsskólum landsins en þörfin er ekki síður brýn í háskólunum og þess vegna er þessi tillaga til þingsályktunar lögð fram. Háskólarnir eru sérstaklega mikilvægir í ljósi þess að stærsti aldurshópur háskólanema, 18–25 ára, er talinn í hvað mestri hættu hvað geðræn vandamál varðar. Samkvæmt evrópskri heilsufarsrannsókn frá árinu 2015 mældust fleiri ungar konur á þeim aldri með þunglyndiseinkenni hér á landi en í nokkru öðru Evrópuríki. Algengasta dánarorsök íslenskra karlmanna á aldrinum 18–25 ára er sjálfsvíg, en árlega deyja u.þ.b. sex ungir menn vegna sjálfsvígs.

Samkvæmt skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá árinu 2014 er sjálfsvígstíðni á Íslandi ein sú hæsta í heiminum. Árið 2013 sviptu 49 manns sig lífi og litlu færri féllu fyrir eigin hendi ári síðar. Þær geigvænlegu tölur segja okkur að mikilvægt er að greina og takast á við þunglyndi strax á fyrstu stigum með aðgengilegri sálfræðimeðferð og fyrirbyggjandi úrræðum. Það mun raunar ekki eingöngu bjarga mannslífum, heldur einnig tryggja betri og árangursríkari skólagöngu ungmenna. Viðunandi sálfræðiþjónusta er til þess fallin að sporna við allt of algengu brotthvarfi nemenda úr námi.

Frú forseti. Í hvítbók mennta- og menningarmálaráðherra frá júní árið 2014 um úrbætur í menntun kemur fram að innan við helmingur, eða 44%, framhaldsskólanema ljúki námi sínu á tilsettum tíma. Þar kemur einnig fram að brotthvarf íslenskra nemenda megi að mestu leyti rekja til geðrænna vandamála. Ætla má að hið sama eigi við um háskólanema. Færa má rök fyrir því að fólk með kvíða eða þunglyndi eigi enn erfiðara með að fóta sig í háskólum sem að jafnaði eru fjölmennir og ætlast er til að nemendur spjari sig á eigin forsendum og hættara er við að nemendur einangrist.

Þegar ungt fólk hverfur frá námi hefur það í för með sér umtalsverðan samfélagslegan kostnað sem mæla má í beinhörðum peningum, svo ekki sé minnst á það tjón sem verður í lífi einstaklings sem hverfa verður frá námi. Góð sálfræðiþjónusta sem veitt er með markvissum hætti þar sem hennar er þörf sparar samfélaginu mikla fjármuni til lengri tíma litið. Það er ekki talin góð hagfræði að spara eyrinn en kasta krónunni. Það höfum við því miður verið að gera í þeim efnum því að fjöldi einstaklinga þarf að neita sér um þessa lífsnauðsynlegu þjónustu. Það leiðir til umfangsmeiri vandamála og kostnaðarfrekari úrræða á síðari stigum. Lyfjakostnaður er niðurgreiddur og örorkubætur greiddar vegna geðrænna veikinda, en stærstur hluti örorkubóta er einmitt greiddur vegna slíkra veikinda. Með aukinni áherslu á geðheilbrigðismál, ekki síst í skólakerfinu, tækist okkur að draga verulega úr þeim samfélagslega kostnaði og bjarga mannslífum, en það eitt og sér ætti að vera nægileg ástæða til að grípa til aðgerða.

Herra forseti. Þetta er óleikur sem manni er gerður þegar nýr forseti stígur í stól, en forseti er hér með kynleiðréttur. [Hlátur í þingsal.]

Herra forseti. Nýlegar tölur frá Bandaríkjunum gefa til kynna að 1.400–1.600 nemendur séu að meðaltali á hvern skólasálfræðing þar í landi. Viðmið samtaka bandarískra skólasálfræðinga (NASP) gera ráð fyrir því að ekki séu fleiri en 1.000 nemendur á hvern skólasálfræðing. Ef hlutverk skólasálfræðings á ekki einungis að vera að greina og veita ráðgjöf, heldur einnig að veita viðeigandi meðferð er mælt með að ekki séu fleiri en 500–700 nemendur á hvern skólasálfræðing.

Til að setja þær tölur í íslenskt samhengi er rétt að nefna að í Háskóla Íslands, fjölmennasta skóla landsins, eru nemendur um 12.500. Í þeim skóla starfar einn sálfræðingur í hálfu starfi. Í öðrum háskólum sem ríkið rekur eru engir sálfræðingar að störfum. Það hefur auðvitað í för með sér að nemendur skólanna verða að leita sér aðstoðar utan veggja skólanna.

Flest bendir til þess að fjöldi fólks neiti sér um sálfræðiþjónustu af fjárhagsástæðum og á það sérstaklega við um ungt og tekjulágt fólk. Algengt mun vera að tími hjá sálfræðingi kosti á bilinu 12.000–15.000 krónur. Sömuleiðis mun vera algengt að einstaklingur með kvíða og þunglyndi þurfi 10–15 meðferðartíma hjá sálfræðingi hið minnsta. Þar af leiðir að bein útgjöld vegna slíkrar meðferðar eru á bilinu 120.000–220.000 kr. Til samanburðar er síðarnefnda upphæðin, 220.000 kr. u.þ.b. 30% af þeirri upphæð sem LÍN lánar einstaklingi í leiguhúsnæði að hámarki til framfærslu á hverri námsönn. Það gefur því augaleið að það reynist ungu námsfólki nánast ómögulegt að leita sér aðstoðar sálfræðings miðað við ráðstöfunarféð sem það hefur á milli handanna.  

Herra forseti. Sjúkratryggingar Íslands greiða ekki niður almenna sálfræðiþjónustu líkt og aðra heilbrigðisþjónustu. Ungt fólk, sem er orðið 18 ára, á því ekki margra kosta völ þegar kemur að því að sækja sér þjónustu vegna andlegra veikinda þar sem það á ekki rétt á sömu niðurgreiðslu og þeir sem yngri eru. Háskólarnir eru fullir af ungu fólki. Það er því kjörinn vettvangur til að bjóða fram sálfræðiþjónustu þar til okkur lánast að koma þjónustu sálfræðinga undir greiðsluþátttökukerfið. Það er langtímalausn sem er eitt af áherslumálum Viðreisnar.

Eins og rakið var hér að framan er því miður langur vegur frá því að viðunandi þjónustu sé að finna innan háskólanna. Háskólinn í Reykjavík setti nýlega á laggirnar sálfræðiþjónustu fyrir nemendur sína. Í Háskólanum í Reykjavík eru á bilinu 3.000– 4.000 nemendur og þar eru tveir sálfræðingar að störfum þótt ekki séu í fullu starfi. Allir nemendur Háskólans í Reykjavík geta sér að kostnaðarlausu leitað til sálfræðings sem hjálpar þeim að greina hvort þeir þurfi á frekari hjálp að halda og þá hvers konar hjálp. Háskólinn býður svo upp á ýmis úrræði, svo sem hugræna atferlismeðferð í hópmeðferð í skólanum sjálfum, nemendum að kostnaðarlausu. Þar koma sálfræðingar og námsráðgjafar að og geta aðstoðað við viss vandamál eða beint nemendum í viðeigandi aðstoð í heilbrigðiskerfinu. Auðvitað er þetta frábært framtak hjá Háskólanum í Reykjavík og kemur verulega til móts við þennan vanda í þeim skóla. En enn sem komið er hafa opinberir háskólar ekki gripið til svipaðra ráða. Það er óviðunandi. Opinberir háskólar verða að geta veitt nemendum sínum sambærilega þjónustu eða betri.

Herra forseti. Markmið tillögunnar er að bregðast við þeim vanda sem skapast þegar sálfræðiþjónusta er ekki nægilega aðgengileg. Lagt er til að aðgengi að sálfræðiþjónustu verði bætt og þá sérstaklega lagt til að stöðugildum sálfræðinga verði fjölgað innan opinberra háskóla. Þar hafi nemendur greiðan aðgang að eins góðri þjónustu og unnt er að veita hverju sinni.

Herra forseti. Lagt er til að málinu verði vísað til hv. velferðarnefndar til umfjöllunar og komi aftur fyrir þingið til síðari umræðu sem allra fyrst.