148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.

113. mál
[18:34]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held áfram að vera sammála. En þetta er ekki bara sagt út í bláinn eða til að fara í einhverjar heimspekilegar vangaveltur um eðli hlutanna því þetta er akkúrat grundvallaratriðið, að eiga erindi við almenning. Það hefur oft verið skákað í því skjóli til að segja að einhver umfjöllun eigi ekki rétt á sér. Þá er í raun og verið á ákveðinn máta verið að færa ritstjórnarvald út af ritstjórnum fjölmiðla. Það getur verið nauðsynlegt eins og hv. þingmaður kemur inn á, segja sumir. Aðrir segja að það eigi einfaldlega ekki að vera þannig. Það eigi bara að vera nokkuð skýrt og það þurfi að vera klár brot, ekki endilega einu sinni á meiðyrðalöggjöfinni heldur beinlínis á almennum hegningarlögum. Ég veit að þetta er tillaga til breytinga á þeim.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um Mannréttindadómstólinn, ég heyri þegar hún fer yfir þetta að hún hefur kynnt sér þetta mál mjög vel. Já, ég starfaði ekki við fjölmiðla fyrir tíma internetsins, nema skólablað Menntaskólans í Kópavogi sé talið fjölmiðill. En hefur hv. þingmaður kynnt sér framþróun þessara mála innan Mannréttindadómstólsins? Eftir hvaða lagaumhverfi er þar verið að vinna? Ég er ekki að segja að við eigum að fara að breyta því lagaumhverfi sem Mannréttindadómstóllinn vinnur innan, en fjölmiðlaheimurinn er einn sá kvikasti þar sem hver og einn er eiginlega orðinn sinn eigin fjölmiðill. Hefur hv. þingmaður skoðað þetta? Hefur verið framþróun fylgjandi tímanum þar?