148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

sala á hlut ríkisins í Arion banka.

[15:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni. Hér þarf að ríkja sem mest gagnsæi. Hluthafasamkomulagið hefur verið birt, stöðugleikaskilyrðin hafa ekki verið birt, ríkisstjórnin hefur óskað eftir því við Seðlabanka Íslands að þau verði birt. Sömuleiðis er búið að ákveða að upplýsingar um þessi mál verði afhentar í trúnaði á fundi efnahags- og viðskiptanefndar á eftir þannig að nefndarmenn munu fá upplýsingar um stöðugleikaframlögin og stöðugleikaskilyrðin.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að um þetta eigi að ríkja eins mikið gagnsæi og mögulegt er því að hér er um risavaxna almannahagsmuni að ræða. En það þarf líka að horfast í augu við að ríkið hefur gert ákveðna samninga fyrr á tíð, 2009, sem staðfestir voru síðar í þinginu. Um þá er sömuleiðis kveðið á í þeim lögum sem ég vísaði til frá árinu 2012. Í framhaldinu var gerður viðauki við þetta hluthafasamkomulag í tengslum við stöðugleikaframlögin 2015 og 2016, líklega var viðaukasamkomulagið gert snemma árs 2016. Ég held að það sé bara mjög mikilvægt að allt (Forseti hringir.) þetta verði lagt á borð efnahags- og viðskiptanefndar þannig að þingið hafi fulla stöðu til að fara vel yfir þessi mál.