148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

verð á hlut ríkisins í Arion banka.

[15:17]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þó að ég lýsi ákveðnum áhyggjum af raddleysi hv. þingmanns sem hefur nú staðið alllengi, virðist vera. Ég vona að hann fari vel með sig og heilsuna.

Hér kemur hv. þingmaður upp og talar um algert stefnuleysi í málefnum fjármálakerfisins. Ég spyr: Hefur hv. þingmaður ekki fylgst með þróuninni? Ekki bara á þeim tíma þegar hann var forsætisráðherra, 2013–2016, sem hann vitnar nú töluvert mikið í, heldur þeirri þróun sem verið hefur hér allt frá árinu 2008? Ég nefndi hvernig við höfum í raun gerbreytt regluverki fjármálakerfisins, sett á laggirnar stofnunina Bankasýslu ríkisins til að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sett niður og farið yfir töluverðan hluta af regluverki fjármálakerfisins og nú stendur yfir vinna við hvítbók þar sem fara á yfir það sem út af stendur og við getum kallað það sem við viljum gera sérstaklega í löggjöf og regluverki um fjármálakerfið til viðbótar við þær breytingar sem við höfum gert í gegnum evrópska regluverkið sem við erum hluti af.

Það ríkir ekkert stefnuleysi í þessum málum. Hins vegar getur hv. þingmaður verið ósáttur við að hér séu ekki allir sammála um þá stefnu sem hv. þingmaður hefur um að ríkið eigi að eiga allt fjármálakerfið, sem mér hefur heyrst að sé stefna hans, þ.e. að ríkið eigi að eiga allt fjármálakerfið. Það sagði ég ekki fyrir kosningar. Það sögðu fæstir flokkar fyrir kosningar. Ég held að við verðum að horfa til þess að um það erum við bara ekki sammála. Það er ekki það sama og að vera ekki með stefnu.

Eins og ég sagði áðan þegar kemur að forkaupsréttinum þá áttum samtal um það mál, ég og hv. þingmaður. Mér finnst mikilvægt að halda til haga að farið var ítarlega yfir þau mál síðasta vor þegar hv. þingmaður taldi að forkaupsréttur ríkisins hefði virkjast. Það var ekki niðurstaðan, hvorki hjá þáverandi stjórnvöldum né í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem ég sat sjálf. Við töldum ekki að forkaupsréttur hefði virkjast þegar við vorum búin að fara yfir málið.

Á eftir að semja um verð? Það liggur fyrir að gefin eru skilyrði í hluthafasamkomulaginu frá 2009 um það hvernig reikna bæri út verð. Það er hins vegar ekki þar með sagt að þar séu menn algerlega sammála þegar sest er niður og farið yfir mál (Forseti hringir.) um hvernig nákvæmlega eigi að miða við þær forsendur. En þær eru gefnar í hluthafasamkomulaginu. Það þarf hins vegar að ná saman um sameiginlegan skilning á þeim forsendum.