148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

verð á hlut ríkisins í Arion banka.

[15:21]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hluthafasamkomulag var birt á sínum tíma, ólíkt stöðugleikaskilyrðunum sem hv. þingmaður, þáverandi forsætisráðherra, lét ekki birta. Ég vonast til að þau verði birt. Það er mjög mikilvægt að allt þetta mál verði fært upp á yfirborðið. Þar ættum við hv. þingmaður að vera sammála, þó að það hafi ekki verið niðurstaða hans á sínum tíma að birta stöðugleikaskilyrðin.

Það liggur síðan fyrir að í hluthafasamkomulaginu er gert ráð fyrir tiltekinni ávöxtun. Það liggur líka fyrir að Bankasýsla ríkisins hefur það lögboðna hlutverk að fara yfir það og kanna hvort þeir sem virkja vilja kaupréttinn og fulltrúar ríkisins í Bankasýslu ríkisins séu sammála um túlkun á ákvæðum sem þar eru.

Hv. þingmaður getur komið hér upp og reynt að gera það tortryggilegt að ég vilji treysta þeim stofnunum samfélagsins sem við settum á laggirnar til að fara með hagsmuni almennings af því að við vildum ekki endurtaka mistök frá fyrri tíð. Ég ætla hins vegar að treysta þeim stofnunum sem hafa farið með eignarhluti ríkisins og sýnt að þar hefur verið vandað til verka á hverjum tíma. Hins vegar legg ég mikla áherslu á að Alþingi hafi fullan aðgang að þeim gögnum og upplýsingum þannig að alþingismenn geti svo sjálfir (Forseti hringir.) lagt mat á þau. Um það hljótum við hv. þingmaður að vera sammála. En við skulum ekki halda að það að hverfa aftur til þess tíma þegar ráðherrar voru að vasast með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum án þess að fagstofnanir kæmu þar að hafi endilega verið góður tími. Við höfum ágæta reynslu af því frá fyrstu árum þessarar aldar.