148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

efnisgjöld á framhaldsskólastigi.

[15:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það vantaði svar við seinni spurningunni, þ.e. frá hvaða námsári þetta taki gildi. Í bréfi frá ráðuneytinu segir, með leyfi forseta:

„Eins og kunnugt er byggðist innheimta skólanna að hluta á bráðabirgðaákvæðum í lögum sem runnu út frá og með haustdögum 2016 og telst sá hluti gjaldanna því ofinnheimtur.“

Að því er virðist er verið að nota þessar 250 milljónir sem við samþykktum í fjárlögum 2018, væntanlega fyrir skólaárið 2018–2019, til þess að greiða nemendum til baka það sem ofrukkað var frá og með haustdögum 2016. Ég skil það ekki alveg. Ég skil ekki hvaðan þessir peningar ættu annars að koma.

Í skilningi þingsins erum við að samþykkja auknar álögur, aukið fjármagn, á efniskostnaðinn. Ef verið er að nota hluta af því fé til að greiða afturvirkt skil ég ekki alveg hvernig (Forseti hringir.) þessar 250 milljónir eiga að duga í það í heildina.