148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

skilyrði fyrir gjafsókn.

[15:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Svörin eru ekki mikil. En það er annað í þessu efni. Nú erum við að ganga frá samningi frá Sameinuðu þjóðunum um réttindi fatlaðs fólks. Samkvæmt því þurfa fatlaðir örugglega að verja réttindi sín og ekki verður mikið um gjafsóknir fyrir þá. Annað gleymist alltaf, þ.e. að tryggingafélögin græða. Ef einstaklingur getur ekki farið gegn tryggingafélögum græða þau. Hvert fara peningarnir? Þeir fara í bótasjóð, svokallaða tryggingaskuld sem aldrei er gerð upp. Mér finnst alveg lágmarkskrafa að svoleiðis sjóðir séu gerðir upp með reglulegu millibili, með fimm til tíu ára millibili, og peningarnir notaðir, að það sé í lögum að peningarnir sem þar eru verði að hluta til notaðir til þess að fólk geti barist við tryggingafélögin. Eftir tvö til þrjú ár eftir slys er fjárhagurinn orðinn slæmur. Fólk er alveg búið með alla peningana og á ekki möguleika að berjast við tryggingafélögin nema það fái gjafsókn.