148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

skilyrði fyrir gjafsókn.

[15:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Mér þykir hv. þingmaður gera lítið úr orðum mínum og telja lítil tíðindi í því þegar ég lýsi því yfir að ég hyggist endurskoða fjárhæðarmörk fyrir gjafsókn. En ég endurtek það þó og árétta, sem einhverjum öðrum kann að þykja frétt, að það verður gert á næstunni.

Ég vil líka nefna, af því að hv. þingmaður ræddi sérstaklega um tryggingafélögin, þessi slysamál sem eru auðvitað alvarleg mál fyrir hvern þann sem lendir í þeim og þarf að sækja rétt sinn, að það liggur fyrir á þingmálaskrá minni frumvarp til breytinga á skaðabótalögum þar sem gert er ráð fyrir löngu tímabærri hækkun stuðla við útreikninga skaðabóta. Ég á ekki von á öðru en að verða í góðu samstarfi við hv. þingmann um afgreiðslu þess máls.