148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

samkeppnisundanþágur mjólkuriðnaðarins.

[15:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þrjár einfaldar spurningar koma frá hv. þingmanni og ég tek með gleði á móti þeim. Ég svara fyrstu spurningunni að sjálfsögðu með jái. Ég trúi að samkeppni sé af hinu góða, bæði fyrir neytendur og ekki síður fyrir þá sem standa í framleiðslunni. Samkeppni gerir kröfur til beggja aðila máls.

Ég er hins vegar ekkert alveg sammála þeirri fullyrðingu, sem kemur fram í máli hv. þingmanns, að skorður séu á samkeppni í mjólkuriðnaði. Það held ég að sé ekki rétt. Mjólkuriðnaðurinn hefur sömu heimildir og t.d. fjarskiptamarkaðurinn til að vinna með sínu lagi á markaði og spara kostnað fyrir neytendur og ekki síður framleiðendur. Þetta er innbyggt í lögin. Með sama hætti er hægt að halda því fram að engar samkeppnishindranir séu í mjólkinni, þ.e. það getur hver sem er keypt mjólk af bændum eða sótt hana til þeirra. Það er bara þannig. Hver sem er getur keypt mjólk af Auðhumlu ef hann kærir sig um það.

Síðan stangast á fullyrðingar varðandi það með hvaða hætti mjólkin hefur staðið sig í samkeppni við aðra neysluvöru. Ég ætla að minna hv. þingmann á könnun og niðurstöðu úttektar Hagfræðistofnunar Háskólans frá árinu 2015 sem segir að mjólk hafi í raun hækkað til muna minna en allar aðrar neysluvörur frá árinu 2003 til ársins 2013. Að einhverju leyti vil ég meina að fullyrðingar um stöðu og framkvæmd mjólkuriðnaðarins séu ekki alls kostar réttar.