148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

samkeppnisundanþágur mjólkuriðnaðarins.

[15:39]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég held að einfaldast sé að halda sig við þær tölur sem koma fram í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni um verðlagsþróun á mjólkurvörum. Þar kemur alveg skýrt fram að á öllu því tímabili sem þetta undanþáguákvæði hefur verið í gildi hafa mjólkurvörur hækkað umtalsvert umfram allar aðrar matvörur í landinu. Vert er að hafa í huga í því samhengi að hér er ekki um hvaða vöru sem er að ræða. Þetta er ein veigamesta matvaran í matarkörfu landsmanna. Vægi mjólkurvara t.d. í vísitölu neysluverðs er meira en vægi eldsneytis. Þetta skiptir því öll heimili verulega miklu máli.

Það er alveg augljóst af svari hæstv. ráðherra, þ.e. hinu skriflega, að mjólkurvörur hafa á þessu 14 ára tímabili hækkað umfram vísitölu neysluverðs, umfram aðra matvöru, sérstaklega umfram aðra drykkjarvöru og umfram aðrar landbúnaðarvörur svo verulega munar um. Það verður ekki rakið til annars en skorts á samkeppni sem er verulegur og kristallast m.a. í því að hér er um opinbert stýrða (Forseti hringir.) verðlagningu að ræða og umfangsmiklar undanþágur frá samkeppnislögum þegar kemur t.d. að samráði og samstarfi innan greinarinnar.

Þess vegna endurtek ég spurningu mína til hæstv. ráðherra: Er ekki orðið tímabært að breyta þessu?