148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

greiðslur til þingmanna.

[15:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vona að okkur takist að finna þessu máli réttan farveg án þess endilega að ræða það hér í pontu. En mig langar að undirstrika að það er ógegnsæið, sem Alþingi hefur kannski ekki upplifað sem slíkt hingað til, sem veldur tortryggninni. Því meira sem við getum birt um þessi mál öll saman, því betra fyrir umræðuna, því betra fyrir þessa þingmenn sem njóta þessa kostnaðar eða nýta sér þessi réttindi.

Mig langar líka að halda því til haga að mér finnst alveg eðlilegt að komið sé til móts við ólíkar aðstæður þingmanna eftir því hvar þeir eiga heima. Við búum jú öll í landi sem býður ekki upp á að Alþingi sé til staðar í öllum kjördæmum. Þingmenn eru þess vegna í mismunandi aðstæðum. Mér finnst mikilvægt að við gerum greinarmun á því annars vegar hvaða fyrirkomulag við viljum hafa og hins vegar hversu gegnsætt það fyrirkomulag á að vera. Óháð því hvernig fyrirkomulagið er á það að vera algerlega gegnsætt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)