148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

frelsi á leigubílamarkaði.

[16:18]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson, fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga og viðkvæma máli myndi ég vilja segja. Það hefur komið í ljós að starfshópur hefur verið að vinna í þessu að undanförnu þannig að kannski er umræðan ekki svo krefjandi akkúrat á þessari stundu þegar vinnan er löngu hafin og í fullum gangi. Það verður athyglisvert að sjá niðurstöður þessa starfshóps.

En ég vil benda á nokkur atriði sem ég sé í þessu máli sérstaklega varðandi öryggi. Við höfum verið talsvert heppin hér á landi með þennan bransa sem leigubílstjóraaksturinn er, hann hefur veitt okkur framúrskarandi öryggi á þessu sviði. Farþegar geta t.d. treyst fullkomlega sínum leigubílstjóra, þannig að ef farþegi gleymir t.d. síma sínum í bifreiðinni, þá er næsta víst að hann finnst á stöðinni daginn eftir. Annað er að ef ölvaðir viðskiptavinir eru á heimleið þá er næsta víst að þeim er borgið hjá þessari stétt sem við köllum leigubílstjórastétt í dag. Þeim er komið af öryggi heim til sín eða á einhvern annan öruggan stað ef ástand þeirra er með þeim hætti.

Einnig er margt annað í þessu sem ekki er vert að fórna, finnst mér, ef þetta verður gefið frjálst. Það er ýmislegt sem er í núgildandi reglum sem ég held að sé hættulegt að fórna. Fyrir hvað er verið að fórna þessu? Fyrir hverju er verið að fórna þessu? Til að menn séu ekki að bíða kannski í korter eftir leigubíl á mesta háannatímanum í miðborg Reykjavíkur? Ef þetta verður gefið frjálst þá þyrpast allir leyfishafar út á sama tíma til að ná í bransann. (Forseti hringir.) Hvernig verður það þá í annan tíma? Þá verða örfáir menn úti á akrinum.