148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

frelsi á leigubílamarkaði.

[16:28]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og hæstv. ráðherra fyrir þessa umræðu hér í þingsal sem ég trúi hálfpartinn ekki að eigi sér enn þá stað.

Ég bind miklar vonir við að nefnd ráðuneytisins sem komið var á fót af fyrri ráðherra skili fljótlega niðurstöðum og að þar verði sjónarmið um aukið valfrelsi í öndvegi. Ég sé engin rök fyrir því að íslensk stjórnvöld haldi óbreyttu fyrirkomulagi á leigubílamarkaði. Óbreytt ástand felur nefnilega í sér einokun, stöðnun og skort á nýsköpun sem kemur helst niður á neytendum en einnig á bílstjórunum sjálfum, að ég minnist nú ekki á að núverandi aðgangshindranir brjóta gegn ákvæðum EES-samningsins.

Það er þess vegna óhjákvæmilegt að breyta þessu ástandi, þótt fyrr hefði verið, eins og gert hefur verið í löndunum í kringum okkur. Margvísleg rök eru fyrir því að breyta núverandi ástandi sem ættu þó auðvitað að vera flestum augljós, að markaður með eins miklum hindrunum og þessi sé ekki besti kosturinn fyrir íslenskt samfélag. Afnám hindrana hefði gríðarlega jákvæð áhrif í för með sér. Að afnema þakið á fjölda leigubílaleyfa myndi, eins og fram hefur komið í umræðunni, bæði fjölga þeim sem sinna þjónustunni, lækka verð og opna fyrir aukna nýsköpun í greininni.

Umræðan fer oft sjálfkrafa að snúast um eitt fyrirtæki. Umræðan um frelsi á leigubílamarkaði á samt alls ekki að snúast um einstök fyrirtæki heldur þau tækifæri sem frelsið býður upp á. Málið snýst um stjórnarskrárbundið atvinnufrelsi og tækifæri fyrir innlenda aðila til að þróa nýjar lausnir sem núverandi regluverk kemur í veg fyrir.

Burt séð frá öllum þessum kostum, að opna fyrir nýsköpun, meiri sveigjanleika, aukið öryggi, fjölbreyttari þjónustu, meiri samþættingu bíla og bætta umferðarmenningu, má einnig leiða líkur að því að betri þjónusta og síðast en ekki síst lægra verð sporni að einhverju leyti gegn ölvunarakstri. Flestir ökumenn sem verða valdir að umferðarslysum eru nefnilega 17–21 árs einstaklingar undir áhrifum áfengis, einmitt sá hópur sem helst setur fyrir sig kostnaðinn við leigubíla.

Leigubílaleyfum hefur fjölgað (Forseti hringir.) rétt um 11% á síðustu 15 árum en fjöldi Íslendinga og ferðamanna sexfaldast. (Forseti hringir.) Ég vona að ráðherrann átti sig á öllum þeim kostum sem eru við að gefa leigubílaakstur frjálsan. Ég hef örlitlar áhyggjur af að fulltrúa sem fyrri ráðherra skipaði í nefnd um breytingar á þessu fyrirkomulagi, (Forseti hringir.) sem talaði mjög fyrir auknu frelsi á leigubílamarkaði, hafi verið vikið úr nefndinni en vona að það sé ekki vegna þess að ráðherranum sé illa við þau sjónarmið (Forseti hringir.) sem hann hafði uppi. Hann getur kannski brugðist við því.