148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

frelsi á leigubílamarkaði.

[16:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að sjá hvað kemur frá þeim starfshópi sem hér var nefndur. Það er rétt sem var nefnt áðan, þetta er viðkvæmt mál. Það er svo sem við því að búast þegar við ræðum hérna lifibrauð fjölda einstaklinga, eðlilega er það fólki hjartans mál þegar gjörvallt lifibrauð þess er háð regluverki sem er að úreldast og mun úreldast meira. Við eigum líka að reyna að finna leiðir til að mýkja lendinguna fyrir þá hópa sem stóla á hefðbundna tækni og regluverkið sem hefur orðið til í ljósi þeirrar tækni.

Markaðurinn er að breytast og hefur breyst. Reglurnar passa ekki lengur við raunveruleikann, passa ekki við það sem tæknin leyfir fólki að gera. Þetta er sama sagan og er með höfundaréttinn. Það þýðir ekkert að vera bara rosalega reiður yfir því að tækniframfarir komi fram. Þær eru komnar fram og fara ekkert burtu. Við verðum bara að horfast í augu við það. Við getum einungis gert það með því að reyna að skilja hvernig við komum upp regluverki sem er í sem mestu samræmi við tækninýjungar. Það þýðir að eftirfylgni með þessum nýja markaði verður í reynd ómöguleg og ég hef áhyggjur af því.

Ég hef alveg heyrt slæma hluti um Uber en það er bara ein tækni, svo eru líka samfélagsmiðlarnir, svokallaðir skutlarahópar, bráðum sjálfkeyrandi bílar og síðan önnur þjónusta sem við sjáum ekki fyrir, t.d. eins og maður væri ekki háður þeim göllum sem hv. 5. þm. Suðurk., Ari Trausti Guðmundsson, nefndi á undan mér.

Hér hefur verið nefnt gegnsæi, öryggi, framfylgd og eftirfylgni eins og skattheimta. Þannig er bara málið að eftirlit með segjum skutlarastarfsemi er ekki raunhæf eða yfir höfuð möguleg ef það er ekki einhver leið fyrir þessa aðila til að taka þátt í þessu hagkerfi. Eina leiðin til að setja þetta upp á yfirborðið er að hafa þetta löglegt og raunhæft og ekki þannig að það þurfi að stíga yfir rosalega marga steina til að komast í þennan bransa. (Forseti hringir.) Við höfum bara tvo kosti, við getum reynt að sporna við þessu og klúðrað því algjörlega eða við getum horfst í augu við staðreyndirnar eins og þær eru og byggt upp lagakerfi sem gerir ráð fyrir raunveruleikanum eins og hann er. Ég ítreka að lokum að það er mikilvægt að við sýnum þessum hópi skilning og reynum að gera regluverk sem hentar hans hagsmunum í samhengi við nútímatækni.