148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

frelsi á leigubílamarkaði.

[16:38]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að bæta örlitlu við mitt fyrra innlegg í þessa umræðu. Breytingar eru greinilega í aðsigi á þessu sviði eins og á mörgum öðrum sviðum atvinnulífsins, ég geri mér fulla grein fyrir því. Ég vil bara leggja áherslu á að gæðum og öryggi þjónustunnar, þjónustu leigubifreiðastöðva og leigubílstjóra, sé ekki fórnað í einhverju æði hér.

Er ekki einfaldast að leysa málið með því að fjölga þessum atvinnuleyfum? Þá þurfa menn ekki að bíða í hálftíma niðri í miðbæ. Mér dettur það helst í hug. Með því að fórna stöðvaskyldunni gæti sú staða komið upp að margir myndu segja upp stöðvarplássi sínu til að spara sér peninga. Ekki er ósennilegt að þeir sem veldu að vera ekki á bifreiðastöð myndu nota atvinnuleyfi sitt sem einhvers konar aukavinnu og þar með minnkar þjónustan sífellt gagnvart neytendum. Þjónustan yrði góð á helstu uppgripstímum vikunnar og sólarhringsins en einungis örfáir þjónustuðu á öðrum tímum. Þetta yrðu einhvers konar uppgrip eða vertíðarvinna.

Talað er um að best sé að afnema gjaldmælana, að menn geti bara samið við bílstjórana. Ég vil ekki sýnast mótfallinn öllu frelsi á þessu sviði en set stórt spurningarmerki við slíkt afnám. Annað sem ég myndi vilja benda á er varðandi eftirlitið. Gert er ráð fyrir að slaka á kröfunum til atvinnubílstjóra til að öðlast þessi réttindi. Þá vil ég benda á að mér skilst að eftirlit með akstri leigubílstjóra sé í dag í höndunum á tveimur lögreglumönnum — frá Hvalfjarðarbotni austur til Hornafjarðar, tveir lögreglumenn. Það er auðvitað ekkert eftirlit.