148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

lögheimili.

174. mál
[16:49]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og eftirfylgnina; þinginu ber að sýna framkvæmdarvaldinu aðhald. Þegar ég kom í ráðuneytið í byrjun desember var ég upplýstur um að starfshópur væri að leggja lokahönd á vinnu við heildarendurskoðun laga um lögheimilisskráningu, m.a. vegna þingsályktunar frá Alþingi þess efnis að það yrði gert. Hins vegar var farið í mun ítarlegri skoðun og sjálfsagt er það skýringin á þeim drætti sem orðið hefur. Kannski hefur Alþingi verið fullbjartsýnt á að hægt væri að ljúka málinu á innan við einu ári. En heildarlöggjöf um lögheimilisskráningu kemur sem sagt fram í mars og ég vona að henni verði vel tekið hér á þinginu.

Þar er lagt til að hjónum verði gert fært að eiga lögheimili hvort á sínum stað óháð því hvort það er vegna atvinnu, þ.e. ef þau kjósa það einhverra hluta vegna.

Án efa verður fjallað um það í þinginu og í nefndarstarfinu, þegar að því kemur, hvort börn komi til með að geta haft tvískipt lögheimili. Það hefur oft verið rætt í þinginu og niðurstaðan orðið að lagalega væri það ekki hægt. Eina mikilvæga breytingu vil ég nefna, þ.e. að þegar foreldrar hafa sameiginlega forsjá sé aðsetur barnsins skráð hjá því foreldri sem það á ekki lögheimili hjá. Það er nýjung hjá Þjóðskrá að slíkt aðsetur barns sé skráð. Í skólakerfinu kemur það þá til dæmis fram hvar báðir foreldrar barns búa, þ.e. hvar barnið á lögheimili og hvar það hefur annað aðsetur. Ég á von á því að nánar verði fjallað um þetta. Foreldrar kjósa að eiga lögheimili hvort á sínum stað en börnin þeirra þurfa þá kannski að vera í leikskóla eða grunnskóla á báðum stöðum og ítarlega gæti þurft að fjalla um það.

Það sem mér finnst kannski mikilvægast í þessu frumvarpi er að gert er ráð fyrir því að taka af skarið með það að fólk geti ekki skráð sig til lögheimilis hvar sem er, bara sisvona; menn kalla það að vera án staðsetningar. Ég held að við skoðun nefndarinnar hafi komið í ljós að um 1.400 manns séu skrásettir með slíkum hætti. Þess vegna er gert ráð fyrir því nýmæli að Þjóðskrá Íslands skuli senda tilkynningu til þinglýsts eiganda fasteignar á island.is um þá sem skrá lögheimili sitt í fasteign í hans eigu. Ef maður færi að skoða það gætu fleiri hafa skráð sig til heimilis heima hjá manni en maður hefur hugmynd um í dag. Það er ómögulegt og getur verið grundvöllur þess að um svik í kerfinu sé að ræða. Það er því mjög mikilvægt að klára þetta mál, og önnur atriði sem eru þarna inni.

Varðandi Facebook-síðu ráðherrans þá er áhugavert að fylgjast með henni. Hún er fréttaveita ráðherrans um það hvað hann er að gera. Þar birtist reglulega margt áhugavert, stundum upplýsingar um ferðir ráðherra eða fyrirhugaða löggjöf, mál sem hann hyggst leggja fram til meðhöndlunar á Alþingi.