148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

lögheimili.

174. mál
[16:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að fá almennilegan tíma til að ræða lögheimili og allt það. Ég vil koma því áleiðis að mér finnst frekar þreytandi við íslenska yfirvaldamenningu hvernig yfirvöldum og Íslendingum finnst alveg sjálfsagt að yfirvöld ákveði hvernig við ætlum að haga okkar prívatlífi. Mér finnst það óþolandi. Hjón eiga alveg að geta verið hjón þótt þau séu ekki með sama lögheimili. Það er ekkert því til fyrirstöðu, annað en einhverjar hugsanlegar skriffinnskuflækjur sem hafa komið fram vegna tilætlunarsemi yfirvalda og samfélagsins hvernig við högum lífi okkar.

Ég vil líka nefna, í ljósi þess sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir nefndi í sambandi við lögheimili barna, hugmyndina að þau hafi tvö lögheimili. Ég hef sent inn fyrirspurn á þskj. 248 um skipta búsetu barna, sem fjallar um sama efni en er þó önnur nálgun. Ég vildi bara halda því til haga í umræðunni. En ég hlakka til að hafa (Forseti hringir.) stærra mál til að ræða betur, þ.e. þjóðskrármál, því að þau eru að mörgu leyti fráleit.