148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

lögheimili.

174. mál
[16:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni.

Frumvarp um þessi mál er sannarlega aðkallandi, en þegar málið var rætt á sínum tíma í þinginu voru ræddar umsagnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem gaf umsögn um þingsályktunartillöguna sem ég er fyrsti flutningsmaður að, en flutningsmenn voru fulltrúar allra flokka sem þá voru á þingi. Samband íslenskra sveitarfélaga talaði um að vegna örra samfélagsbreytinga undanfarna áratugi væri ýmislegt sem þyrfti að skoða betur. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort í frumvarpinu séu aðeins þessi tvö atriði sem hæstv. ráðherra nefndi áðan og ákall Þjóðskrár um endurskoðun laga um lög um aðsetursskipti, hvort því ákalli sé svarað í því sem hæstv. ráðherra nefndi áðan.

Síðan vil ég, herra forseti, biðja forseta um að ræða það á næsta forsætisnefndarfundi hvort það sé sæmandi — eða hvort við ættum ekki bara að virða umræður á Alþingi að þegar búið er að senda út dagskrá þá sé umræðan tekin við ráðherra hér á forsendum þingmannanna, en þegar svo er þá séu ráðherrar ekki búnir að henda út yfirlýsingum og svörum á sínum forsendum á Facebook-síður sínar áður en umræða hefst hér. Mér finnst það óásættanlegt, herra forseti. Ég vona að þetta mál verði tekið upp við forsætisnefnd.