148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

lögheimili.

174. mál
[16:58]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og þakka fyrirspyrjandanum fyrir að hefja máls á henni. Þar sem fyrirspyrjandi var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um þetta mál getur hann nú glaðst yfir því þegar frumvarpið kemur fram, einkum ef þingið er sammála því að fara þessa leið varðandi lögheimili hjóna.

Það eru fjölmörg önnur atriði í frumvarpinu sem eru til bóta og með fylgja skýrar greinargerðir um af hverju menn fara þessa leið eða hina. Það er þó hvorki tími né tækifæri til að ræða það hér í dag.

Varðandi það sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir kom inn á, hvort ráðherrann hefði ekki orðið var við umræðu um réttlæti í því að börn hefðu lögheimili hjá báðum foreldrum þá er það auðvitað þannig. Þess vegna spurði ég eftir því þegar starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum. Það var mat þessa hóps að lagalegar hindranir væru fólgnar í því og fór hann því þá leið að leggja til að barnið hefði lögheimili hjá öðru foreldrinu en að það væri skráð með aðsetur hjá hinu. Það er án efa til bóta. En ég var þá þegar sannfærður um að þetta yrði umræðuefni í þinginu og að menn myndu kanna hvort hægt væri að fara einhverjar aðrar leiðir. En þarna var þetta lagt til og verður þar af leiðandi til umfjöllunar í þingnefnd þegar þar að kemur. Ég vonast til að þetta frumvarp sé að detta í hús og hlakka til að fá að mæla fyrir því og taka umræðu við hv. þingmenn um fleiri þætti þessa máls.