148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

vegþjónusta.

154. mál
[17:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í janúar var tilkynnt um aukningu á vetrarþjónustu á þjóðvegum til að auka umferðaröryggi og er það vel. Ég veit hins vegar ekki hvort sú ákvörðun hefur farið að skila sýnilegum árangri í rysjóttu vetrarveðri síðustu vikna.

Góð vetrarþjónusta er grundvöllur að ferðaþjónustu um allt land allt árið. Vetrarþjónusta er auðvitað líka grundvöllur að stækkun atvinnusóknarsvæða víða um land. En þó er það svo að fjöldi fólks ferðast daglega til og frá vinnu á svæðum þar sem vetrarþjónusta er ekki veitt daglega eða veitt eftir að vinnutími er hafinn.

Ég fagna þjónustuaukningunni sem varð nú í janúar og tel að hún geti stuðlað að því að fleiri ferðamenn fari lengra út frá Reykjavík yfir veturinn en hingað til. En það vakna líka ýmsar spurningar. Það virðist til dæmis vera þannig að vetrarþjónusta á stórum hluta hringvegarins sé enn í þjónustuflokki þrjú. Upplýsingar um vetrarþjónustu eru birtar á vef Vegagerðarinnar. Það er engan veginn auðvelt að lesa út úr þeim nema þekkja þeim mun betur til. Framsetningin virðist miðuð við sérfræðinga í vetrarþjónustu, svo sem verktaka og sveitarfélög.

Ég velti fyrir mér hvort ekki gæti verið gagnlegt að setja þessar upplýsingar fram á aðgengilegri hátt þannig að þær nýtist almenningi og ferðaþjónustunni betur. Eins og upplýsingar um færð á vegum sem Vegagerðinni hefur tekist að setja fram með skýrum og aðgengilegum hætti, þannig að skýrt væri hvað fælist í snjómokstursreglum annars vegar og þjónustuflokkum hins vegar.

Eins velti ég fyrir mér hvernig eftirliti með vetrarþjónustu sé háttað þar sem oft á tíðum virðist við fyrstu sýn ekki vera samræmi í þjónustunni milli sambærilegra þjónustusvæða. Ég veit að stundum er það vegna þess að verktakar gera betur en til er ætlast en einnig getur hrein tilviljun valdið, svo sem vegalengd frá upphafsstað þjónustu og fleira. Það geta verið mikil viðbrigði að fara af vel sönduðum vegi yfir á flughálan veg án nokkurra viðvarana bara vegna þess að keyrt er á milli þjónustusvæða.

Ég vil því spyrja hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra:

Hvað er lagt til grundvallar við ákvörðun um þjónustuflokk vetrarþjónustu á þjóðvegum landsins?

Til hvers var horft þegar ákvörðun var tekin um aukna vetrarþjónustu á tilteknum vegum nú í janúar 2018?

Hvernig skiptist þjónusta á þjóðvegi 1 eftir þjónustuflokkum? Hversu margir kílómetrar eru í hverjum flokki og hvernig dreifast þeir landfræðilega?

Hvernig er eftirliti með vetrarþjónustu háttað og hvað felst í því eftirliti?