148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

vegþjónusta.

154. mál
[17:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir svarið og hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir innlegg hennar.

Það er gott að fá þessar upplýsingar fram en enn betra að vita af því að þær koma líka fram skriflega og ítarlegri svo hægt er að leggjast yfir þær og skoða þær frekar.

Ég heyrði það nú síðast á ferðum mínum um Norðausturkjördæmi í kjördæmaviku að íbúar telja víða að vegþjónustan sé ekki alveg í takti við þær gífurlegu breytingar sem orðið hafa á atvinnusókn, bæði á milli byggðarlaga en líka úr sveitum þar það er nú orðin undantekning að tveir fullorðnir vinni við hvert bú. Annar aðilinn sækir því vinnu daglega utan búsins.

Í framhaldi af því velti ég fyrir mér og heyrði umræðu um hvort eðlilegt væri að leggja fleiri þætti til grundvallar við útboð á vegþjónustu, eins og á hvaða tíma dags þjónustan hefst, hvort það er við upphaf vinnutíma, þegar skólabörn þurfa að ferðast um vegi, þegar þau þurfa að fara af stað, þarfir ferðaþjónustunnar og loks svæðisbundna og staðbundna veðurfarsþætti. Það er víða þekkt að það getur verið lítill blettur þar sem snjóalög eru erfið eða snjóþyngsli mikil og/eða nokkrir kílómetrar með mikilli svellmyndun, en ekki er sandað eða saltað. (Forseti hringir.) Þarf ekki að taka það til skoðunar nú þegar fram undan eru útboð víða fyrir næstu ár?