148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku var kjördæmavika. Þá var nú veður rysjótt og erfitt til samgangna í Suðurkjördæmi. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfðum undirbúið sex daga dagskrá sem hefjast átti í Höfn þarsíðasta sunnudag, en vegna veðurs komumst við ekki þangað og úr varð að einungis tveir dagar í síðustu viku nýttust okkur samkvæmt þeirri dagskrá sem við höfðum lagt fram.

Það var áhugavert að hitta þá sem við náðum þó að hitta. Við Sjálfstæðismenn lögðum sérstaka áherslu á að hitta lögregluna, björgunarsveitir og sjúkraflutningamenn á einstökum stöðum sem við komumst á. Það hafði hv. þm. Vilhjálmur Árnason undirbúið, en hann er sérstakur áhugamaður um löggæslumál og björgunarmál. Það var því afar vel til fundið að taka púlsinn á þessari mikilvægu starfsemi.

Eins og ég hef sagt hér áður er það fólkið í lögreglunni og á hjúkrunarheimilum sem heldur starfinu gangandi. Þetta er eins á sjónum; ef það vantar einn mann í áhöfnina þá bæta hinir á sig verkum. Þannig er það í lögreglunni og hjá þessum hjálparstofnunum. Þar er alveg gríðarlega vel unnið, en það kemur líka niður á þeim að lögregluliðið er fáliðað og í dag, þegar við erum hérna inni, eru 10% lögreglumanna í landinu veikir heima. Það er dagskammturinn af veikindum lögreglumanna vegna mikils annríkis og álags. Við, þessi þjóð, þurfum að bæta kjör þessara aðila og við þurfum líka að bæta aðstöðu þeirra sem vinna á hjúkrunarheimilum vegna þess þar er líka mannekla. Þar þarf fólkið alltaf að bæta á sig einum snúningi af því að það vantar mann í skipsrúm. Við skulum vinna að því í þessum sal að bæta það.