148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. ISF, eða Iceland Sustainable Fisheries, er eigandi fiskveiðiskírteina sem vottuð hafa verið samkvæmt MSC-staðlinum vegna veiða á helstu nytjastofnum við Íslandsstrendur. MSC-vottun er útbreidd vottun sem innleidd var á Íslandi fyrir nokkrum árum og er mest hagnýtta vottunarkerfið á sviði sjálfbærrar nýtingar. Það má með öðrum orðum kalla þetta heilbrigðisvottorð.

Þann 4. janúar síðastliðinn var MSC-vottunin dregin til baka af grásleppuveiðum og var ástæðan of mikill meðafli af teistu, dílaskarfi og sel í netin. Þetta eru mjög alvarleg tíðindi og hafa þegar leitt til þess að erlendir kaupendur hafa hætt viðskiptum við íslenska grásleppukaupmenn vegna þessa.

Starfsmenn Landssambands smábátaeigenda hafa rannsakað málið ítarlega og komist að þeirri niðurstöðu að þessir útreikningar eigi ekki við nokkur rök að styðjast. Að þeirra sögn eru gögnin unnin úr mjög takmörkuðum upplýsingum frá fáum bátum á mjög takmörkuðu svæði.

Sjávarútvegsráðherra kallaði til fundar 1. febrúar með helstu sérfræðingum og aðilum málsins og er verið að vinna í málinu. Ef gögnin sem unnið var úr eru ófullnægjandi, eins og Landssamband smábátaeigenda fullyrðir, er það mjög alvarlegt mál. Samkvæmt upplýsingum úr sjávarútvegsráðuneytinu geta þau ekki lagt mat á gæði gagnanna heldur er unnið úr þeim eins og þau berast.

Þess má geta að grásleppuveiðar hefjast í næsta mánuði og eru grásleppuveiðimenn mjög áhyggjufullir vegna þessarar stöðu.