148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Í gær bárust okkur þau válegu tíðindi að til stæði að ganga að tilboði erlendra vogunarsjóða í 13% hlut ríkisins í Arion banka. Það má segja að þetta ferli hafi hafist í tíð 10 mánaða stjórnarinnar sálugu sem er líklega því marki brennd að sjaldan hafa jafn fáir valdið jafn mörgum jafn miklum skaða á jafn skömmum tíma og sú stjórn. Nú er aftur á móti tekin til starfa stjórn og uppistaðan að henni eru leifarnar af 2009 ríkisstjórninni og lýtur forustu hennar. Hæstv. forsætisráðherra sagði í gær í þessum ræðustól í svari að salan á þessum 13% væri risavaxnir almannahagsmunir. Hvaða afstöðu tekur ráðherrann með þessum risavöxnu almannahagsmunum? Jú, gegn þeim, einfaldlega sagt.

Það má segja að núverandi ríkisstjórn sé að klára óheillavegferð þá sem var hafin á dögum vinstri stjórnarinnar sálugu árið 2009, lá kjarklaus fyrir fótum erlendra aðila alla tíð, (Gripið fram í.) og þetta ferli er nú upp tekið aftur. Það er raun að verða vitni að þessu. Það er mjög alvarlegt að þetta skuli gerast vegna þess að eitt ríkasta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar um þessar mundir er að endurreisa og endurskipuleggja bankakerfið. Það gera menn ekki með því að leggjast flatir fyrir erlendum öflum. Það gera menn ekki með því að hunsa það að ríkissjóður á forkaupsrétt. Þetta er stórlega ámælisvert og verður lengi í minnum haft, herra forseti.