148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég ætlaði að nota ræðu mína í annað en ég held að ég geti ekki vikist undan því að fara aðeins í gegnum þau ummæli sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson viðhafði hér. Ég held að það sé einhver misskilningur í gangi hjá honum. Ég vona að hann kynni sér a.m.k. þau gögn sem liggja fyrir og hægt er að nálgast þegar kemur að sölu á 13% hlut ríkisins í Arion banka.

Við skulum hafa staðreyndir á hreinu og virða þær staðreyndir sem liggja fyrir. Það liggur fyrir og er ljóst að árið 2009 var gerður samningur sem fól í sér einhliða kauprétt Kaupþings á hlutabréfum ríkisins, þessum 13%, í Arion banka. Menn geta haft skoðanir á því hversu góður samningurinn var en sá kaupréttur var ekki bundinn neinum tíma, það var hægt að virkja hann hvenær sem var. Verðið var fyrir fram ákveðið að því leyti að reikniformúlan lá fyrir, það voru vextir á ríkisskuldabréfum að viðbættu 5% álagi. Það sem tekist er á um núna er hreinlega hvenær upphafið hafi verið og hvenær lokin, hversu langt tímabilið hafi verið. Það er það sem réð endanlegu verði.

Menn geta haft skoðanir á þessum samningi, hversu góður eða slæmur hann hafi verið, en ég vona að enginn hv. þingmaður hér í salnum sé að hvetja til þess að íslenska ríkið standi ekki við þá samninga sem gerðir hafa verið, óháð því hvaða álit menn hafa síðan á gerðum samningum. (Forseti hringir.) Hvaða afleiðingar og hvaða skilaboð halda menn að það sendi erlendum aðilum og okkur öllum ef íslenska ríkið ætlar ekki að virða gerða samninga?