148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Sá sem hér stendur hefur áður á þessum vettvangi gert verkleysi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að umtalsefni. Og enn verð ég að höggva í sama knérunn.

Þann 17. desember sl. lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um rekstrarform og ráðstöfun eigna Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Svarið barst loks í gær eftir að hæstv. ráðherra hafði óskað eftir fresti til að skila svari sínu. Ég átti því satt að segja von á ítarlegu svari og sýn ráðherrans á málefni Nýsköpunarsjóðs eftir tveggja mánaða yfirlegu hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Þvílík vonbrigði. Svarið er svo rýrt að undrun sætir að tekið hafi tvo mánuði að leggja það fram. Í svarinu er greint frá því að vinnu starfshóps hafi seinkað en vinna sé vel á veg kominn. Þegar spurt er um áform ráðherra og markmið hans varðandi sjóðinn er svarið, með leyfi forseta:

„Afstaða til þess hvort ástæða sé til breytinga á lögum um sjóðinn verður tekin þegar skýrslan liggur fyrir. Leggi starfshópurinn til lagabreytingar er þó ekki raunhæft að frumvarp verði lagt fram á þessu þingi, til þess er tíminn of skammur.“

Herra forseti. Getur þingið látið bjóða sér þessi vinnubrögð? Er ásættanlegt að það taki tvo mánuði að svara því til að skýrslu starfshóps hafi seinkað og að hennar sé beðið?

Hitt er svo stórmerkilegt að hæstv. ráðherra virðist engar sjálfstæðar skoðanir hafa á framtíð Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Mér sýnist því hér komið enn eitt dæmið um stefnuleysi og verkleysi — eða er það kannski verkkvíði? — ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.