148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Á síðasta þingi lagði ég fram skýrslubeiðni um ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis um fjármálaráðherra. Hún var ekki afgreidd vegna þess að boðað var til kosninga. Því lagði ég skýrslubeiðnina aftur fram á núverandi þingi. Í endurteknum yfirlestri þingsins kom fram að betra væri að skipta skýrslubeiðninni á fjármálaráðherra, velferðarráðherra og forseta Alþingis til þess að viðeigandi aðili mundi svara fyrir málefni sem heyrði undir hans verksvið. Skýrslubeiðnin var unnin af þingmönnum og sérfræðingum þingsins og fékk margfaldan yfirlestur. Þeim hluta sem beint var til forseta Alþingis var meira að segja beint annað að lokum af tæknilegum ástæðum.

Þegar skýrslubeiðnirnar komu svo til afgreiðslu á þinginu mætti fjármálaráðherra í atkvæðaskýringu 24. janúar síðastliðinn og sagði skýrslubeiðnina vanhugsaða. Hv. þm. Birgir Ármannsson sagði að fyrirspurnin væri of víðtæk og ómarkviss, en ætti þó við fjármálaráðherra ásamt fleirum, velferðarráðherra og forseta þingsins.

Þá var hvatt til þess að betrumbæta skýrslubeiðnina, sem ég féllst á að skoða. Síðan þá hef ég beðið og ýtt á eftir hugmyndum um betrumbætur frá þeim sem kvörtuðu, en ekkert fengið. Á meðan fór ég yfir málið með sérfræðingum þingsins sem sögðu að kannski væri hægt að taka það sérstaklega fram að ráðherra ætti bara að svara fyrir þær ábendingar sem heyrðu undir hans verksvið, sem ætti að segja sig sjálft.

Engar aðrar athugasemdir var að finna, enda er skýrslubeiðnin faglega unnin með dyggri aðstoð frá sérfræðingum þingsins. Beiðnin beinist að fjármálaráðherra, hæstv. félagsmálaráðherra og forseta Alþingis, sem eiga að taka saman þær ábendingar um skýrsluna sem varða ráðuneyti þeirra eða þingið í tilviki forseta.

Virðulegi forseti. Ég verð að gera alvarlega athugasemd við afskipti ráðherra á skýrslubeiðni þingmanna, þeim dómi sem hann lagði á vinnu þingmanna og gæðaeftirlit þingsins. Orð ráðherra um skýrslubeiðni standast ekki skoðun. Þeir sem gagnrýndu hafa á tæpum mánuði ekki rökstutt mál sitt á neinn hátt. Því legg ég til að skýrslubeiðnirnar verði á ný settar á dagskrá þingsins.