148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[14:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég tek eindregið undir með hv. þm. Oddnýju Harðardóttur varðandi verkleysi ríkisstjórnarinnar. Það er ekki þannig að við vitum ekki um hvað ríkisstjórnin var mynduð. Hún var mynduð um ákveðna kyrrstöðu, um að halda völdum, en fyrst og síðast um að byggja upp innviði. Það er engin fyrirstaða af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni, að því er ég best veit, við viljum styðja við uppbyggingu samgöngukerfis, heilbrigðiskerfis og menntakerfis. Komið ykkur að verki. Ég tek undir með hv. þingmanni.

Ég kveð mér hljóðs til þess að taka eindregið undir með hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni. Ég undirstrika stuðning minn við ósk hans um að tekin verði á dagskrá þingsins skýrsla sem m.a. á að fylgja eftir ábendingum úr rannsóknarskýrslu Alþingis. Það er fáheyrt, stórundarlegt, að hér hafi hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórn Íslands komið í veg fyrir að skýrslubeiðni væri afgreidd þrátt fyrir að farið hafi verið eftir ábendingum fagfólks hér á þingi og mikið samráð haft og farið eftir leiðsögn. Þetta er fáheyrt og hefur ekki gerst (Forseti hringir.) í hátt í 30 ár að þingið, í rauninni framkvæmdarvaldið komi í veg fyrir að löggjafarvaldið afgreiði eðlilega skýrslubeiðni. Ég hvet hæstv. forseta til þess að setja þessa skýrslubeiðni á dagskrá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)