148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[14:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir gagnrýnina á hendur ríkisstjórninni hvað það varðar að leggja fram fá mál og gera það seint. Þetta er sami söngurinn og var á þarseinasta kjörtímabili þegar önnur ríkisstjórn var við stjórnvölinn. En ég vil nefna sérstaklega eitt risavaxið mál sem varðar persónuverndarlöggjöf, kemur frá Evrópu eins og ýmisleg fleira gott og er eitthvað sem við þurfum að innleiða hér. Fyrirtæki og stofnanir, jafnvel einstaklingar í samfélaginu, þurfa oft að breyta sínum högum í persónuverndarmálum frekar mikið. Þetta mál átti að koma frá dómsmálaráðherra hingað inn í janúar og er ekki enn komið fram.

Það þýðir að við erum lengur að vinna það, höfum skemmri tíma til að skilja afleiðingar þess og samfélagið sjálft er verr í stakk búið til að bregðast við þeim breytingum sem eiga að koma fram. Það þýðir að farið getur illa.

Við svona stórar breytingar verðum við að hafa tíma til að vanda okkur. Þetta er enn og aftur sami gamli söngurinn um að mál komi ekki nógu snemma hingað inn. Þetta er mikilvægt. Þetta snýst ekki um okkur þingmenn, þetta snýst um réttaröryggi í landinu, (Forseti hringir.) að almenningur sjálfur geti brugðist við löggjöfinni sem hér er sett af okkur.