148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[14:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég mun gera allt sem ég get til að halda mig þennan lið, fundarstjórn forseta. Úr því að ég er að ræða fundarstjórn forseta langar mig að hvetja hv. forseta til að beita sér fyrir því að ríkisstjórnin gyrði sig í brók og komi með eitthvað af þeim málum inn á þing sem hún setti fram í einhvers konar plaggi sem átti að vera stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar um hvaða mál ætti að leggja fram. Það væri óskandi að þau kæmu.

Kannski er það ekki svo skrýtið því að ef við lesum stjórnarsáttmálann, sem við erum öll væntanlega búin að gera einu sinni því að það þarf ekki að lesa hann oftar, er þar ósköp lítið. Þar er eiginlega ekkert að finna. Talað er um breiða ríkisstjórn sem einbeitir sér að innviðum. En svo heyrum við úr þessum ræðustól að sá ráðherra sem þarf einna helst að beita sér fyrir innviðauppbyggingu, þ.e. samgönguráðherra, ætlar ekkert að koma með neina áætlun. Hann ætlar ekki að sýna okkur hvað hann ætlar að gera í innviðauppbyggingunni. Það á ekki einu sinni að koma með neitt mál til þingsins fyrr en einhvern tímann í haust eða guð má vita hvenær. Mál sem átti þó að leggja áherslu á. Hvað þá með öll hin málin sem ekki náðu inn í textann í stjórnarsáttmálanum? Eru þau ekki til?

Virðulegi forseti. Það þarf eitthvað að tala við þessa ríkisstjórn. Getum við ekki öll verið sammála um það?