148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[14:12]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég kem hingað til að taka undir með ansi mörgum öðrum. Það er svo sem ekki bara það að það hefur verið ítrekað fundarfall í nefndum, endalausar heimsóknir hjá nefndum frekar en að verið sé að taka mál fyrir, heldur eru líka margir þingfundir sem eru afskaplega stuttir vegna þess að liggja engin mál fyrir. Við erum svolítið í fyrsta gír núna og svo, eins og oft hefur verið, er ætlast til þess að við förum í einhvern túrbógír þegar er komið fram í maí.

Nú lítur þetta þannig út að það sé full þörf á að taka þingmannamál í forgang ef ríkisstjórnin sér sér ekki fært að leggja fram nægilega mörg þingmál til þess að við höfum eitthvað að gera á þinginu. En ég ætla að taka fram það sem ég hef sagt áður: Skipulagsleysi af ykkar hálfu mun ekki skapa neyðarástand af okkar hálfu þegar komið er fram í maí.