148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[14:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins halda áfram með umræðuna um skýrslubeiðnina og vil vekja athygli forseta á því að í umræðunni um atkvæðagreiðsluna fyrr í janúar var minnst á kostnaðinn við það að búa til þessar skýrslur, um Íbúðalánasjóð og rannsóknarskýrslu Alþingis. Hann var hár. Ástæðan fyrir þessari skýrslubeiðni minni er til þess að glata í raun ekki þeim fjárhæðum sem fóru í gerð þeirra skýrslna og eitthvað verði gert við þær ábendingar sem var komið þar á framfæri, það verði gert eitthvað úr þeim, þetta sé ekki bara plagg sem safnar ryki uppi í hillu. Ég tel það gríðarlega mikilvægt fyrir þingið að við klárum málið, sjáum hvar ábendingarnar eru staddar í kerfinu, hvaða ávinning við höfum fengið af þeim fjármunum sem við lögðum út í rannsóknarskýrslum Alþingis, að við nýtum þá fjármuni sem við höfum þegar lagt út fyrir.

Ég hvet forseta til þess að sjá til þess að skýrslurnar verði lagðar fram og hvet þingheim til þess að (Forseti hringir.) veita þeim brautargengi.