148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[14:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að gagnrýna hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar fyrir að lýsa eftir frumvörpum frá ríkisstjórninni. Ég vona bara að ákall þeirra verði meðtekið þannig að frumvörpum frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar fari að fjölga. Ég geri ráð fyrir að fleirum verði útbýtt hér á eftir, en við sjáum hvað setur með það. Þingmenn stjórnarandstöðunnar geta þó fagnað því að hafa rýmri tíma til að ræða eigin frumvörp eins og á dagskránni í dag.

Ábendingin af þeirra hálfu er hins vegar réttmæt að því leyti að þetta má ekki verða til þess að hér verði til of mikill málastabbi í lok þinghaldsins. Það er auðvitað skynsamlegast fyrir alla aðila að dreifa þessu jafnt yfir þingtímann frekar en mikill málafjöldi safnist upp áður en þingi lýkur.

Út af sérstöku máli sem hér var drepið á, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi persónuverndarlöggjöfina, þá vill svo til að í einni af gagnlegum heimsóknum þingnefnda til stofnana ríkisins, þ.e. í heimsókn allsherjar- og menntamálanefndar (Forseti hringir.) til Persónuverndar í morgun, var þetta sérstaklega rætt. Þar eru starfsmenn að vinna að undirbúningi þessa frumvarps í samvinnu við fulltrúa dómsmálaráðuneytis og reyndar annarra ráðuneyta. Vonir (Forseti hringir.) standa til þess að þeirri vinnu fari að ljúka þannig að það mál skilar sér hér til þingsins. (Forseti hringir.) Enginn dregur í efa mikilvægi þeirrar löggjafar og mikilvægi þess að hún komist hér til þingsins, (Forseti hringir.) en þess verður þó að geta að tilskipun Evrópusambandsins og reglugerð sem þetta mál byggir á er ekki komið inn í EES-samninginn.

(Forseti (SJS): Forseti biður hv. þingmenn að gæta að tímamörkum.)