148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[14:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þarnæsta mál á dagskrá er mál sem er tilkomið vegna þess að ekki var gefinn nægur tími í að skoða það mál til hlítar. Ég skil mætavel að það gerist þegar það er lítill tími. Það er þess vegna sem ég hef áhyggjur af því sérstaklega að ný persónuverndarlöggjöf fái ekki næga umræðu og yfirlegu hér á þinginu.

27. apríl mun koma. Þetta verður að vera komið á laggirnar þá. Stofnanir samfélagsins verða að hafa haft tíma til þess að sjá lögin eins og þau eru í sinni endanlegu mynd og bregðast við þeim í kjölfar þess. Þær geta undirbúið sig að miklu leyti nú þegar en við hljótum að þurfa að geta vandað þessi lög þannig að ekki verði mistök á borð við þau sem við ætlum að fara að leiðrétta hér í þarnæsta mánuði.

Tíminn skiptir máli. Það eru um það bil tveir mánuðir í þetta. Þetta átti að koma í janúar. Ég batt vonir við að þetta kæmi í janúar svo að við hefðum nægan tíma. Ég óttast að við séum enn og aftur að gera þessi sömu mistök, að hafa bara ekki nægan tíma til að liggja yfir málunum eins og þarf til þess að borgarar þessa lands geti (Forseti hringir.) varið réttindi sín með einhverjum almennilegum hætti.