148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[14:24]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti hefur ekki veitt því athygli að fleiri óski eftir að ræða fundarstjórn hans að svo stöddu. Hann vill í tilefni af þessari umræðu taka fram að honum sýnist nú að þingmönnum takist vel upp með að finna sér tilefni til umræðu jafnvel þó að fá mál séu á dagskrá. Hitt er allt rétt og satt að mikilvægt er að mál berist tímanlega frá ríkisstjórn þannig að tíminn nýtist hér til vandaðra vinnubragða og að afgreiðslur geti allar farið fram með sómasamlegum hætti. Forseti treystir á að hæstv. ríkisstjórn sé það vel kunnugt. Auðvitað hefur forseti Alþingis ekki boðvald yfir framkvæmdarvaldinu í þeim efnum með beinum hætti.

Varðandi það sem hér hefur verið rætt um skýrslubeiðnir og að þær komi á dagskrá þá mun forseti taka það til skoðunar.