148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[14:26]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga. Tilefnið er að þegar þær umfangsmiklu breytingar sem gerðar hafa verið á íslenskri réttarfarslöggjöf vegna stofnunar millidómstigs voru samþykktar vorið 2016 urðu þau mistök að þágildandi 221. gr. laga, um meðferð sakamála, féll niður. Í því ákvæði er meðal annars fjallað um hvernig standa skuli að innheimtu sakarkostnaðar. Einnig var mælt fyrir um skyldu til niðurfellingar sakarkostnaðar við tilteknar aðstæður. Þessi mistök uppgötvuðust núna þegar lög um meðferð sakamála voru uppfærð og birt í heild á vef Alþingis í janúar 2018 við vinnu í dómsmálaráðuneytinu er laut að sakarkostnaði. Það er nauðsynlegt að bæta úr þessum mistökum. Því er lagt til með þessu frumvarpi að ákvæðinu verði bætt inn í lögin að nýju, í óbreyttri mynd að sjálfsögðu. Jafnframt eru lagðar til samsvarandi lagfæringar á lagatilvísunum í lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga. Aðrar breytingar felast ekki í frumvarpinu.

Í frumvarpinu felast engin álitaefni er varða samræmi við stjórnarskrá eða mannréttindaskuldbindingar, enda eru þetta ákvæði sem hafa lengi verið í lögum. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.