148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[14:28]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú vorum við einmitt að tala svolítið um þessi hröðu vinnubrögð sem oft skila af sér villum. Í greinargerðinni er útskýrt að þetta hafi ekki uppgötvast fyrr en í haust. En lög nr. 49/2016 hafa verið aðgengileg á vef Alþingis frá því stuttu eftir að þau voru samþykkt 7. júní 2016, það er eitt og hálft ár síðan. Hvernig má það vera að það hafi tekið þetta langan tíma að taka eftir þessu? Hvernig má það vera að við höfum verið með málið í svona klúðri í þetta langan tíma? Í frumvarpinu voru gerð mistök sem gerðu að verkum að ekki má innheimta sakarkostnað. Reglan er náttúrlega sú að ef þú tapar sakamáli þá borgar þú sakarkostnaðinn. Þessi mistök gerðu að verkum að sú regla hefur ekki verið í gildi frá 1. janúar þegar lögin tóku gildi.

Samkvæmt vef héraðsdóms hafa fallið dómar í 82 sakamálum frá 1. janúar. Hver á að borga sakarkostnaðinn í þessum málum? Það hefur ekki verið lagaheimild til þess að innheimta hann. Lendir það á ríkissjóði?

Í greinargerðinni segir:

„Þá hefur frumvarpið engan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.“

Hvernig má það vera? Hver á að sjá um að rukka þetta? Á grundvelli hvaða heimildar?

Ég spyr: Hvað kostar þetta klúður okkar í þetta skipti? Nú er þetta ekki fyrsta klúðrið sem við sjáum af þessu tagi, sérstaklega í tengslum við dómstóla og annað. Þetta er alla vega klúður sem kann að kosta okkur einhvern pening. Hvað kostar þetta? Hvers vegna kostar þetta okkur þetta mikið? Hvers vegna var þetta ekki uppgötvað fyrr?