148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[14:32]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég bað nú um svör við spurningum frekar en hroka frá hæstv. dómsmálaráðherra. Ég væri afskaplega til í að fá hrokalaust svar í þetta skiptið. Það vill svo til að hún lýsti ágætlega fyrstu setningunni í 1. mgr. 221. gr. laganna og svo 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Það er samt spurning um hvernig má skilja það. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sakarkostnaður sem sakfelldum manni er gert að greiða samkvæmt dómi, úrskurði eða viðurlagaákvörðun skal innheimtur hjá honum, eftir atvikum með fjárnámi og nauðungarsölu.“

Það hljómar fyrir mér eins og heimild.

Svo er við það að bæta að ef reyna á að innheimta þetta, sem er væntanlega það sem þarf að gera vegna þessara 82 sakamála sem fallið hefur dómur um, mundi það þá ekki fara gegn (Forseti hringir.) banni við afturvirkum refsiheimildum, þ.e. ef þetta yrði innheimt aftur í tímann vegna þeirra 82 dómsmála sem fallið hefur dómur um síðan 1. janúar?