148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[14:39]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég árétta og ítreka að það frumvarp sem hér liggur fyrir varðar ekki Landsrétt á nokkurn hátt sérstaklega. Ef hv. þingmaður er að vísa til laga um dómstóla, þá hef ég lýst því yfir að það þurfi svo sannarlega að skoða ýmis atriði í þeim lögum eins og hverja aðra löggjöf á hverjum tíma sem kann að vera þannig að eðlilegt sé að uppfæra í samræmi við nýjar aðstæður í þjóðfélaginu eða skoðanir manna eða ríkjandi stjórnvalda á hverjum tíma. Þessi löggjöf um dómstóla er, eins og önnur löggjöf sem undir dómsmálaráðuneytið heyrir, til sífelldrar endurskoðunar. Það er ekkert sem kallar á að löggjöfin verði sérstaklega rýnd umfram aðra löggjöf, rýnd sérstaklega með tilliti til mögulegra mistaka í lagasetningu. Mistök koma upp er varða þessa löggjöf eins og aðra og á því er þá bara tekið. Ég vona að löggjafinn afgreiði þetta mál hratt og örugglega.