148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[14:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þýski heimspekingurinn Friedrich Nietzsche sagði einhvern tíma að lífið endurtæki sig aftur og aftur um alla eilífð. Það er hugmynd sem ýmsa hryllir við. En Nietzsche kenndi okkur að listin væri að læra að elska lífið eins og það birtist manni sem þessi eilífa endurtekning hins sama.

Mér dettur þetta í hug vegna þess að við hæstv. ráðherra höfum staðið í þessum sporum, ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur sex sinnum áður. Ég hef ekki verið lengi á þingi en ég er búinn að leiðrétta lög um útlendinga og lög um dómstóla þetta oft. Lög nr. 10/2017, lög nr. 17/2017, nr. 53/2017, 89/2017 og lög nr. 90/2017 voru lögð fram sem frumvörp af hæstv. ráðherra og lög nr. 54/2017 voru lögð fram sem frumvarp af allsherjar- og menntamálanefnd til að bregðast við mistökum sem leysa þurfti ansi hratt.

Mér verður eiginlega orða vant. Það er engin ástæða til að kenna þinginu um sérstaklega og ekki ástæða til að kenna ráðuneytinu um sérstaklega. Það er sameiginleg ábyrgð okkar beggja að setja hér lög sem standast tímans tönn eitthvað aðeins og draga ekki af fólki réttindi. Það er svo sem eðlilegt að mistök komi upp en mér þykir þetta ansi vel í lagt; þau fimm mál sem ráðherrann hefur lagt fram á sínum átta mála ferli sem ráðherra, fimm af átta málum sem ráðherrann hefur borið inn á þing hafa verið leiðréttingar. Ég ímynda mér að ráðherrann, eins og ég, sjái sinn pólitíska metnað í ýmsu öðru en að leiðrétta villur. (Forseti hringir.) Þannig að ég velti fyrir mér: Hvernig getum við, þingið og ráðuneytin saman, lagað þetta?