148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[14:43]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að þylja upp þessi lagafrumvörp sem ég hef lagt fram. Hv. þingmaður telur þau öll varða einhverja leiðréttingu á lögum, ég er ekki alveg viss um að það standist alla skoðun heldur voru einhver af þessum frumvörpum viðbrögð við breyttum aðstæðum. Látum það liggja á milli hluta. Hann vill greinilega skrifa minn sess í sögunni þannig að sá ráðherra sem hér stendur leiðrétti mistök annarra ráðherra, og eiga það við þá ráðherra sem á undan mér störfuðu.

Það er nú þannig, og menn þurfa ekkert að láta það hljóma eins og það sé eitthvað öðruvísi, að löggjöf er auðvitað lifandi plagg. Hún þarf vera lifandi og það þarf að vera hægt að bregðast við breyttum aðstæðum, breyttum áskorunum. Lagabálkur eins og t.d. löggjöf um útlendinga var gríðarlega umfangsmikið verkefni á sínum tíma þegar við samþykktum á þingi að setja málaflokknum heilan nýjan lagabálk í stað þess að breyta fyrirliggjandi lögum. Það vissu það allir og um það var meira að segja fjallað við afgreiðslu þess máls á sínum tíma, á þarsíðasta kjörtímabili, að það lægi fyrir að sú löggjöf þyrfti að taka breytingum mjög fljótlega í tímans rás í ljósi reynslunnar.

Hvernig má bregðast við þessu til framtíðar? Ég tel og ég hef talað fyrir því að héðan frá Alþingi séu samþykkt miklu færri lagafrumvörp en hefur verið undanfarin ár. Ég tel að hraðinn á meðferð mála, við vinnslu frumvarpa, oft á tíðum hraðinn í þinglegri meðferð sé allt of mikill. Ég tel mjög fá mál það brýn að þau þurfi á þessum hraða að halda og ég tel að það væri öllum hollt að vanda vel til lagasetningar og það á bæði við gerð frumvarpa í ráðuneytum en einnig líka þingmannafrumvörp.