148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[14:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra lét að því liggja varðandi einhver af þeim lögum sem ég taldi upp að þau mál hefðu ekki snúist um leiðréttingar. Það er rétt að því leyti til að ýmis önnur atriði fengu að fljóta með í þeim breytingum. En ég gætti fyllstu sanngirni þegar ég taldi þetta upp. Lög nr. 53/2017 snerust um það að óloknum sakamálum hafði ekki verið komið fyrir við það að Landsdómur tók til starfa. Lög nr. 10/2017 snerust um það að nefnd til að meta hæfi dómaraefna hafði ekki lagastoð til að skipa Landsrétt. Lög nr. 90/2017 snerust um það að einkamál voru í lausu lofti við það að Landsréttur var settur á laggirnar. Lög nr. 89/2017 snerust um það að dvalarleyfi iðnnema höfðu týnst. Lög nr. 17/2017 snerust um það að það var prentvilla, eins og ráðherrann sagði sjálfur, þegar kom að hjúskap og sambandi útlendinga. Lög nr. 54/2017, sem nefndin flutti sjálf, snerust um það að það hafði gleymst að hugsa um (Forseti hringir.) skiptinema á framhaldsskólastigi. Þetta voru allt leiðréttingar.

Af því ráðherrann talar um að hér sé oft of mikill hraði í of stórum málum vil ég minna á persónuverndarlöggjöfina sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi hér áðan, (Forseti hringir.) það er gríðarlega stór löggjöf sem er að falla á tíma. Viljum við standa hér eftir ár með fimm leiðréttingar á þeim lögum?