148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[14:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og kannski er orðið ljóst er svo sem ekki mikið efnislegt að segja um þetta mál, þetta snýst frekar um það hvers vegna við erum að ræða það. Eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson fór yfir þá er þetta orðið ákveðið þema, ákveðinn vani, sem er mjög slæmt. Við þurfum að finna út úr því hvernig við lögum það.

Fyrst ætla ég að afgreiða örfáa hluti í ljósi ræðna hæstv. dómsmálaráðherra. Eins og hæstv. dómsmálaráðherra er tamt þá henti hann ábyrgðinni í þingið, allt í lagi. Þá vil ég nefna að árum saman hefur linnulaust verið kvartað undan tíma- og aðstöðuskorti á Alþingi. Það vill svo til að ríkisstjórnir sem myndað hafa meiri hluta Alþingis, og þar af leiðandi verið í færum til að breyta því til hins betra, hafa fyrst og fremst verið skipaðar fólki úr röðum flokks hæstv. dómsmálaráðherra. Látum það liggja milli hluta.

Dómsmálaráðherra nefndi áðan að þingið samþykki stundum lög sem stangist á við stjórnarskrá. Það gerist, auðvitað gerist það. Ágætislausn á því má finna í frumvarpi stjórnlagaráðs — ég nýti hvert tækifæri sem gefst til að minnast á það — en það er fyrirbæri sem heitir Lögrétta. Ég hvet hæstv. dómsmálaráðherra til að kynna sér þá lausn og deila einhvern daginn skoðun sinni á henni með okkur.

Aftur að þessu máli. Fyrir mér skiptir engu hverjum mistökin eru að kenna. Það skiptir ekki máli í mínum huga hvort þetta er Alþingi að kenna, núverandi hæstv. dómsmálaráðherra eða fyrrverandi dómsmálaráðherra eða hvað. Það eina sem ég hef áhuga á er hvernig við leysum þetta og reynum að fyrirbyggja að þetta gerist aftur og aftur; að við séum ekki að taka fyrir klaufalegar lagfæringar vegna þess að tími var ekki nægur, greinilega, og aðbúnaður og aðstæður ekki þannig að hægt hafi verið að fyrirbyggja þessar villur.

Í ljósi þess hef ég sérstakar áhyggjur af — eins og ég nefndi áðan undir liðnum um fundarstjórn forseta, en ég vil nefna aftur — reglugerð Evrópusambandsins sem er á leiðinni. Hún er kölluð GDPR, eða á ensku General Data Protection Regulation. Þetta er frekar viðamikil uppfærsla á persónuverndarlöggjöf Evrópu — Ísland er að sjálfsögðu þátttakandi í þessu, þetta er reglugerð — og að mínu mati til hins betra. Það er kominn tími til að við förum að taka Persónuvernd nógu alvarlega til þess að fyrirtæki og stofnanir velti því fyrir sér hvort þær séu í stakk búnar til að uppfylla þær kröfur sem þessi reglugerð leggur á þau. Ég er þeirrar skoðunar að ef fyrirtæki og stofnanir hefðu ekki áhyggjur af því þá þætti mér reglugerðin sennilega ekki ganga nógu langt. Við höfum trassað Persónuvernd og friðhelgi einkalífs svo lengi og svo mikið að það eina sem gæti hugsanlega lagað það eitthvað hlyti að valda áhyggjum hér og þar.

Það er mikilvægt að innleiðing á löggjöfinni hérlendis heppnist vel og að stofnanir samfélagsins séu í stakk búnar til að bregðast við henni. Það er mikilvægt að löggjöfin sé skýr. Það er mikilvægt að mistök séu ekki gerð, hvort sem það er hér á Alþingi, í dómsmálaráðuneytinu eða hjá Persónuvernd eða hvar sem er. Það er aukaatriði í sjálfu sér. Það sem skiptir máli er að við höfum nægan tíma til að vinna hlutina.

Þetta frumvarp átti að koma fram í janúar, samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, en er ekki enn komið fram og nú er 20. febrúar. Það eru u.þ.b. tveir mánuðir í 27. apríl. Þá stöndum við frammi fyrir því ef ekki verður búið að samþykkja þetta þá — ég hef litla trú á því að við verðum ekki búin að samþykkja frumvarpið þá, en ef svo færi — væri orðið misræmi milli lagaumhverfisins hér og í Evrópu sem gæti verið mjög óþægilegt fyrir okkur eðli málsins samkvæmt.

Ég hef meiri áhyggjur af því að þetta verði gert á þvílíkum hraða og af þvílíku offorsi hér að við gerum mistök, það er áhyggjuefni. Ég kalla þess vegna eftir því að þetta frumvarp verði klárað. Ég átta mig líka á kaldhæðninni sem felst í þeirri beiðni því að fólk í öðrum stofnunum er líka að flýta sér, hefur kannski ekki þann tíma sem þyrfti. Þetta virðist vera viðvarandi vandamál mjög víða í íslenskum stofnunum. Ég ber fulla virðingu fyrir því, það bara dregur ekki úr vandanum.

Mig langar líka að vekja athygli á tveimur málum sem Píratar lögð fram á sínum á tíma. Annað var reyndar samþykkt á 145. þingi en það var þingsályktunartillaga með heitinu Tölvutækt snið þingskjala. Sú ályktun fjallaði um það — nú vona ég að ég verði ekki of tæknilegur fyrir hlustendur — að þingskjöl væru gefin út á tölvutæku sniði sem yrði til þess að hægt væri að fara með efni þingskjala í sérsmíðuðum forritum. Þá er ég ekki endilega að tala um risavaxin hugbúnaðarverkefni. Ég er jafnvel að tala um einföld skeljarit, sem svo eru kölluð — 100, 200, 300, 5.000 línur kannski af skeljariti eftir því hvað mönnum þóknast — til að fara yfir lög og greina hluti. Ef fyrirkomulagið væri slíkt fullyrði ég að þau mistök sem við ræðum hér hefðu ekki orðið.

Þegar eru til þó nokkuð góð gögn, svokölluð hliðargögn, á ensku megadata, um gögn Alþingis; um hluti eins og flutningsmenn, ráðherra, þingskjöl, umsagnir, tímasetningar, atkvæðagreiðslur, ræðufjölda, ræðulengd og því um líkt. Nú þegar er þó nokkuð stór hópur í samfélaginu, þótt hann tengist ekki endilega innbyrðis, sem er að skoða þau gögn, leika sér með þau og finna út hvað hægt er að gera skemmtilegt með þau. Stundum kemur eitthvað mjög áhugavert upp, eins og t.d. sú ágæta greining sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson nefndi hér áðan. Það er hægt að gera ýmsar greiningar. Þær eru gagnlegar fyrir umræðuna. Þær eru gagnlegar fyrir málsmeðferðina, jafnvel þótt hver og einn kunni ekki endilega rosalega vel á tölvur. Það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að gögnin séu sett fram á þann hátt að hægt sé að nota tölvu til að leysa úr vandamálum; t.d. að manneskjur taka ekki eftir hlutum eða geta ekki talið það hátt það hratt að samhengi hlutanna verði ljóst, eða hvað svo sem fólk er að skoða hverju sinni.

Eins og ég segi var þessi ályktun samþykkt og enn er starfshópur að störfum við að finna út úr því hvernig megi koma þessu á koppinn. Þetta er flóknara en maður heldur í byrjun. Frumvörp eru samin út um allt, ekki bara hér á Alþingi og ekki bara í ráðuneytunum. Það er misjafnt hvernig þau eru unnin. Þau eru líka unnin af aðilum úti í bæ. Píratar hafa nú þegar lagt fram tvö frumvörp sem við köllum Bergþórs-frumvörpin vegna þess að þau eru samin af hv. meðlimi Pírata. Hann skrifaði þau og við lögðum þau fram eftir að hann lét okkur þau í té og við höfum skoðað þau; þau eru auðvitað frábær eins og við er að búast.

Það þýðir að allir þeir sem skrifa þingskjöl eru ekki að fara að nota sérsmíðaðan ríkishugbúnað til að gera það. Fólk notar bara Microsoft Word eða hvað annað sem því dettur í hug, eða Libreoffice, ágætu hlustendur; fólk notar hvað sem því sýnist. Það er okkar að taka við þessu þannig að vel fari. Þetta er ekki endilega alveg hluti af þessu, en þetta er mikilvægt og gagnlegt verkefni sem ég vona að klárist sem fyrst. Við sjáum hvað tíminn segir um það.

Annað þingmál var lagt fram af Pírötum á sínum tíma, en það var tillaga til þingsályktunar um auðkenningu breytingartillagna. Ég ætla að lesa efni þeirrar tillögu í heild sinni. Ég minni á að þessi tillaga var ekki samþykkt, því miður. Hún er um margt lík hinni og var bent á það af umsagnaraðilum. Í henni segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis að setja reglur um að breytingartillögum annars vegar og frumvörpum til laga um breytingar á gildandi lögum hins vegar skuli fylgja rafrænt skjal sem sýni þau lög eða skjöl sem breyta skal í endanlegri mynd að auðkenndum þeim breytingum sem fyrirhugað er að gera.“

Ályktunin er nú ekki flóknari og greinargerðin ekki mikið lengri. Jú, hún er kannski tvisvar, þrisvar sinnum lengri, en það er alla vega ekki mjög langt.

Ef verklagið sem hér er lýst væri við lýði hygg ég, út frá lestri greinargerðar þess frumvarps sem við ræðum hér, að þessi mistök hefðu ekki átt sér stað. Mistökin, sem eiga sér stað, samkvæmt greinargerð frumvarpsins sem við ræðum hér, voru uppgötvuð þegar heildarplaggið var birt á vef Alþingis. Frumvarpið sem var lagt fram á sínum tíma sem varð að lögum og innihélt villuna var listi yfir breytingar, svolítið erfitt að grafa sig í gegnum það jafnvel fyrir þingmann, vissulega á skömmum tíma. Það verður frekar ruglingslegt frekar hratt ef um er að ræða stóra og flókna lagabálka og ef tilvísanir eru hingað og þangað, getur orðið flókið og tekur tíma og býður upp á mistök, svona smáatriðamistök. Við erum bara mannleg og jafnvel þó að við séum mjög klók í okkar fagi getum við samt gert mistök. Það er ekki við öðru að búast og verður aldrei við öðru að búast, held ég.

Ef skjalið hefði legið fyrir, ef frumvarpið hefði verið gefið út og samhliða hefði verið skjal sem hefði sýnt breytingarnar á lögunum sem þegar voru í gildi, þá hygg ég að við hefðum gripið þetta atriði strax. Ég hygg reyndar að ráðuneytið sjálft hefði gripið þetta strax. Ég hygg að þetta hefði aldrei gerst. Ég hygg enn fremur að fyrir þá sem vinna með eða hafa hagsmuni sem varða sérstaklega ákveðna lagabálka — segjum lög um útlendinga eða þessi lög um dómstóla, lög um allt það sem varðar helstu réttindi fólks í samfélaginu — hefði betra færi gefist til að koma auga á eitthvað sem varðar það sérstaklega.

Þegar sá starfshópur sem ég nefndi hér áðan skilar tillögum sínum mun það samt taka þó nokkurn tíma að innleiða þær vegna þess að þetta er tæknilega flókið úrlausnarefni. Ég er farinn að velta því fyrir mér, sérstaklega í ljósi þessa frumvarps, hvort ég eigi að leggja þessa þingsályktunartillögu, um auðkenningu breytingartillagna, aftur fram þrátt fyrir að starfshópurinn sé að verki. Hann mun taka einhvern tíma í að skila af sér, geri ég ráð fyrir, og innleiðingin mun vissulega taka enn meiri tíma, sér í lagi ef ekki fæst fjármagn. Meðan ég er í stjórnarandstöðu geri ég ekki ráð fyrir að fá fjármagn fyrir þessu mikilvæga verkefni þótt ég hafi reyndar lært það á þessu þingi að maður á ekki að þykjast geta spáð of mikið fyrir um framtíðina. Ótrúlegustu hlutir gerast.

Þegar við tölum um þetta hér á Alþingi erum við svolítið fljót að fara í að kenna einhverjum um eða fara hratt í vörn. Ef við gerum of mikið í því, í hvora áttina sem er, missum við kannski sjónar á lausnum sem í boði eru eða gætu verið í boði. Hér eru tvær. Ein þeirra er á leiðinni, mun taka einhver ár. Önnur er frekar einföld. Ég er að vona að Alþingi þurfi ekkert að álykta um þetta heldur geti tekið upp það verklag að skjöl væru alltaf með auðkenndum breytingum, sem fyrirhugaðar eru, það væri óskandi. Ef við lítum á þetta lausnamiðað og viðurkennum vandann — vandinn var mjög augljós þegar hv. þm. Andrés Ingi Jónsson fór yfir hann hér áðan — getum við alveg leyst þetta með opnum huga, með virðingu fyrir vandamálinu og með því að vera ekki allt of mikið í vörn.

Að lokum vil ég segja að mér finnst almennt ekki hlustað nógu mikið á kvartanir þingmanna yfir því hvernig sumir hlutir virka hér. Mér finnst lausnirnar sem eru boðnar á móti oftast ekki duga eða ganga nógu langt. Mér finnst oftast gert lítið úr þeim vandamálum. Ég nefni sem dæmi kvartanir um tímaleysi. Það er gert lítið úr því og sagt: Þú hefðir getað lesið þetta þarna. Eða: Þetta liggur allt fyrir einhvers staðar á einhverjum vef, eitthvað svona. En þetta er viðvarandi vandamál. Þingmenn eru ekki bara að kvarta undan þessu, þetta sést í vinnunni. Þetta sést í þeirri staðreynd að við erum að ræða þetta mál hér og nú. Ef það væri bara þetta eina mál, gott og vel, þá væru þetta mistök sem við þyrftum ekki endilega að halda miklar ræður um. En þetta er viðvarandi vandamál. Þetta gerist aftur og aftur í risavöxnum lagabálkum sem snerta sum mikilvægustu réttindi fólks. Ég nefni lög um útlendinga sem dæmi.

Nú reyni ég að segja þetta án þess að setja virðulegan forseta eða stjórnarliða í vörn. En við verðum að taka þetta alvarlega. Við verðum að hlusta á umkvartanir í þessum efnum og sérstaklega þegar bornar eru á borð lausnir sem geta hjálpað til við að leysa vandann. Þetta þarf ekki að vera ágreiningsefni. Við þurfum bara að vilja gera þetta og setja örfáar krónur í verkefnin til að klára þau. Þá getum við alveg bætt vinnubrögðin heilmikið án þess að þurfa að kenna neinum um eða lesa öðrum pistilinn um hvernig sá hinn sami ætti að haga sér öðruvísi en hann gerir.