148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[15:19]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ágætar umræður sem verið hafa um þetta mál og að nokkru leyti um nokkur önnur mál sem eru til umfjöllunar á Alþingi eða munu verða það á næstu misserum.

Mér hefur þótt hv. þingmenn geysast fram á þennan umræðuvöll af miklu kappi en stundum af minni forsjá. Ég vil árétta í tilefni af orðum hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar, þar sem hann féllst á að ekki væri rétt að draga menn hér til saka eða að benda á einhvern þegar mistök koma upp af því að ég hafði nú nefnt það í ræðu minni að það væru nú fleiri en ráðherra sem kæmu að lagasetningu, að það er jú, löggjafinn sjálfur og þingmenn sjálfir sem að hafa lokaorðið um lagasetningu.

Mér þóttu hins vegar samflokksmenn hans úr flokki Pírata hafa það eitt að markmiði hér að kenna þeim ráðherra sem hér stendur um allar þessar ófarir á þingi, þ.e. um mistök við lagasetningu. Hér voru talin upp nokkur svokölluð mistök, en engin af þeim mistökum voru gerð í ráðherratíð minni, heldur þvert á móti voru sum hver gerð nokkrum kjörtímabilum áður en ég tók við ráðherraembætti. Ég vildi nú bara árétta það og ítreka.

Þá vil ég líka nefna hér, þótt að það komi þessu máli ekki sérstaklega við, af því að hér var nefnd persónuverndartilskipun sem ég er með í undirbúningi og hef lagt drög að frumvarpi um, að menn hafa mikinn áhuga á því og miklar áhyggjur af því að ekki vinnist tími til að afgreiða það frumvarp. Það verður mjög viðamikið og flókið. Sú löggjöf hefur ekki verið innleidd inn í EES-réttinn og ekki kemur til greina að samþykkja það frumvarp sem ég hef undirbúið áður en það verður gert. Ég tel til mikils vinnandi að vel sé unnið að því frumvarpi. Það er dæmigert mjög stórt mál sem skiptir máli að fái frið og mikla yfirlegu og ágæta þinglega meðferð þegar þar að kemur.

Ég verð líka að nefna hvað varðar þetta frumvarp sérstaklega, það kom fram í andsvörum við hv. þm. Smára McCarthy, að það lýtur einungis að skyldu ríkisins að leggja út fyrir sakarkostnaði. Það hefur ekkert með innheimtuferlið sem slíkt að gera heldur er það ívilnandi fyrir sakborninga, þ.e. ríkið hefur í marga áratugi lagt út fyrir sakarkostnaði. Einnig er heimild til þess að falla frá innheimtu sakarkostnaðar. Eftir sem áður eru ákvæði í lögum um meðferð sakamála um sakarkostnaðinn þ.e. þar eru ákvæðin, sem ekki hafa fallið niður á neinum tímapunkti, um að sakborningur beri straum af sakarkostnaði. Og í lögum um fullnustu refsinga er einnig ákvæði sem kveður á innheimtu á sakarkostnaði. Mér fannst það komast til skila í andsvörum við hv. þm. Smára McCarthy.

Ég vil að lokum nefna eitt varðandi vinnu við frumvörp og frumvarpagerð. Ég tek undir þau sjónarmið sem koma fram hjá hv. þingmönnum um að þeim sé öllum gerð sú vinna sem einföldust, hvort sem þeir eru lögfræðingar eða ekki. Ég átta mig á því að frumvarp eins og þetta getur verið tyrfið, jafnvel fyrir löglærða. Það er auðvitað engin ástæða til annars en að hafa framlagningu gagna með þeim hætti að öllum sé einfölduð sú vinna og að ekki sé um tvíverknað að ræða fyrir þingmann, að hann þurfi ekki að setja saman mörg skjöl ef hægt er að gera það á fyrri stigum.

Þegar ég sat í hv. efnahags- og viðskiptanefnd í nokkurn tíma höfðum við þann háttinn á að óska eftir lagafrumvörpum frá ráðuneytum, að minnsta kosti þegar um langa og flókna lagabálka var að ræða, í því sem kallast „track changes“, eða í ritvinnsluskjali, ritvinnsluformi, ég þekki ekki íslenska heitið. Það sýnir breytingar á skjali, þ.e. þingmenn fá í hendurnar lögin sem breyta á, með innfelldum breytingartillögum þannig að menn átti sig betur á því. Að mínu mati er slík framsetning á lagafrumvörpum alveg örugglega til bóta fyrir frumvarpshöfunda. Að minnsta kosti hef ég þann háttinn á þegar ég hef samið frumvörp að vinna málið þannig. Þingmenn hafa öll tök á að óska eftir framsetningu með þessum hætti, kjósi þeir það. Það var aldrei vandamál í hv. efnahags- og viðskiptanefnd á sínum tíma að fá starfsmenn þingsins til að leggja skjölin fram með þessum hætti.

Það er nú ekki við starfsmenn þingsins að sakast í þessu, þeir eru allir af vilja gerðir til að auðvelda þingmönnum vinnuna. En það kann auðvitað að vera að þingmenn hafi mismunandi hátt á í sínu vinnulagi og eitt hentar einum en annað öðrum. En ég hef að minnsta kosti mælst til þess við ráðuneyti mitt að reynt sé að finna einhverja leið, ef það er ósk þingmanna, að fá frumvörpin með þeim hætti að auðveldara sé að átta sig á þeim breytingum sem um ræðir. Innan þingsins hafa verið tíðkuð mjög svokölluð samanburðarskjöl, sem eru að mínu mati eru ekki nægilega gagnsæ ef menn ætla að flýta fyrir vinnu og yfirlestri lagafrumvarpa. Það getur verið að hver þingmaður vilji hafa sinn háttinn á en það er sjálfsagt að hafa það þannig í ráðuneytunum — nú tala ég að vísu bara fyrir mitt ráðuneyti, dómsmálaráðuneytið — að frumvörp komi fram á því formi, að minnsta kosti sem fylgiskjöl, þannig að auðveldara sé fyrir þingmenn að átta sig á þeim breytingum sem verða. Ég hef þegar óskað eftir því í ráðuneytinu að það verði þannig framvegis.

Ég þakka enn og aftur fyrir ágætar umræður. Þótt ekki hafi mikið verið rætt um frumvarpið sem slíkt held ég að umræðan hafi verið gagnleg er lýtur að vinnubrögðum við samningu lagafrumvarpa og vinnu hér á þinginu. Ég óska enn og aftur eftir góðu samstarfi við þingið allt og geng út frá því að það verði svo við afgreiðslu þessa frumvarps.