148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[15:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að ég þurfi bara að koma hér upp einu sinni til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra. Mér heyrðist hún tala um að persónuverndarlöggjöfin, eða eitthvað í þeim dúr sem var í takt við það sem ég heyrði frá öðrum hv. þingmanni áðan, yrði ekki komin inn í Evrópulöggjöf. Einhvern veginn þannig var talað svo ég hef áhyggjur af því að sú dagsetning, 27. apríl, sé á einhvern hátt óskýr.

Bara til að segja eins og er: Samkvæmt öllu sem ég hef séð, alls staðar þar sem ég hef rætt þetta mál eða heyrt um það, hvort sem ég hef lesið um það á netinu erlendis eða hér, hefur legið fyrir að 27. apríl sé dagsetningin sem þetta muni taka gildi. Ef það er einhver misskilningur af minni hálfu vil ég endilega fá að vita af því. Ef það er á einhvern hátt óskýrt að þetta verði allt komið í gildi 27. apríl finnst mér mikilvægt að það komi fram, vegna þess að ég er hræddur um að við vinnum þetta of hratt. Ég óttast sérstaklega að ef einhver misskilningur er í kerfinu á því að ekki liggi á þessu, en svo liggur á þessu og þá hvetji það okkur til að flýta okkur of hratt.

Mér finnst liggja mjög mikið á þessu. Minn skilningur er sá að það leiki enginn vafi á því að þetta muni taka gildi 27. apríl. Er það misskilningur af minni hálfu?