148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

áfengislög.

127. mál
[16:01]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Aftur: Ég áskil mér rétt til að fylgjast með málinu eftir því sem því vindur fram. Ég er tiltölulega jákvæður gagnvart því svona fyrsta kastið.

Í raun og veru hef ég ekki efnislega spurningu varðandi akkúrat efni þessa frumvarps. En í ljósi þess að við hv. þingmaður höfum síðustu daga átt samræður um greinargerðir langar mig aðeins að spyrja hann út í ákveðið orðalag í greinargerðinni sem mig langar að fá nánari skýringu á. Án þess að ég ætli að gerast eitthvað dramatískur er þarna orðalag sem mér hnykkti dálítið við að sjá. Hér er talað um, með leyfi forseta:

„Þótt ákvæðið stangist ekki beinlínis á við 27. gr. stjórnarskrárinnar stangast það hins vegar óneitanlega á við það markmið sem greininni er ætlað að ná, nefnilega það að borgarinn sé meðvitaður um hvaða hegðun teljist ásættanleg að mati löggjafa og samfélags.“

Hv. þingmaður fór ágætlega yfir í framsögu sinni hvað hann telur þetta hafa áhrif á, þ.e. hvernig hann telur stjórnarskrána spila þar inn í. Fyrsta kastið þegar ég horfði á þetta fannst mér menn vera að seilast eftir stærstu tólunum í verkfærakistunni til að færa rök fyrir máli sínu en hv. þingmaður gerði það ágætlega. En það er þetta með að borgarinn sé meðvitaður um hvaða hegðun teljist ásættanleg að mati samfélags. Hvenær getur borgari nokkurn tímann verið meðvitaður um hvaða hegðun teljist ásættanleg að mati samfélags? Hvenær er nokkurn tíma hægt að segja að eitthvað sé ásættanlegt, nú eða ekki ásættanlegt, að mati samfélags eða ekki? Hvernig mælum við það hvað samfélag telur? Hvað er í raun og veru samfélag?

Ég veit að við erum komin í heimspekilegar spurningar en af því að ég veit að hv. þingmaður hefur mikla skoðun á því að lög og lagaskýringargögn séu skýr og einföld langar mig að fá hv. þingmann til að koma aðeins inn á þetta því að þetta er orðalag sem (Forseti hringir.) stingur mig dálítið í augun.