148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

áfengislög.

127. mál
[16:08]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stuttu máli: Nei. Ég sé ekki mótsögn í þessu. Ég man nú ekki til þess að einhver sem rætt hefur hið svokallaða áfengismál, þ.e. um sölufyrirkomulagið, hafi hafnað því að áfengi sé hluti af íslenskri menningu, hvort sem fólki líkar það betur eða verr.

Hv. þingmaður nefnir að hér séu flutningsmenn sem séu á móti því en hlynntir þessu. Markmiðið með þessu frumvarpi er að forða borgurum landsins frá því réttarfarslega stórslysi sem það væri ef löggjafinn tæki upp á því að framfylgja þessum lögum.

Þegar kemur að sölu á áfengi er ekki aðalspurningin um framfylgd laganna eða réttindi borgaranna gagnvart rannsóknarheimildum og fangelsisvist heldur er það spurning um hvort maður fari í ríkisrekna búð eða einkarekna til að kaupa áfengi. Þetta eru eðlisólík mál.

Í raun og veru þætti mér best ef við ímynduðum okkur að við værum ekki að tala um áfengi í hvoru frumvarpi fyrir sig, heldur um bleikt M&M í öðru frumvarpinu og í hinu frumvarpinu um blátt M&M. Eðli málsins snýr ekki að áfengi heldur að samfélagslega viðurkenndri hegðun sem er bönnuð með háum refsiramma og miklum rannsóknarheimildum sem ekki er framfylgt. Það er eðlisólíkt áfengismálinu.

Ég gæti líka hnýtt í þingmann til baka og ætla að leyfa mér það aðeins. Mér hefur einmitt fundist Sjálfstæðisflokkurinn oft tala mjög fallega um einstaklingsfrelsi, en svo þegar kemur að málum á þinginu fara þeir ekki í einstaklingsfrelsið eins og þetta mál snýst um, heldur viðskiptafrelsið, eins og sölufyrirkomulagið snýst um. Ég gagnrýni það ekki í sjálfu sér að fólk berjist fyrir meira viðskiptafrelsi. Það er ágætt mál eitt og sér. En það er ekki einstaklingsfrelsismál. Þetta er einstaklingsfrelsismál. Frelsismál í skilningi fangelsisvistar eða frelsis, þannig frelsismál.